vikan í hnotskurn

Síðustu daga hef ég verið með hausinn í rugli, síðust að skríða upp úr veikindunum og hringsnúandi í þörfinni fyrir að breyta til. Ef ég væri í minni eigin íbúð þá myndi ég sennilega taka herbergin í gegn, mála og færa til húsgögn. En þar sem ég er ekki í minni eigin íbúð og ekki heldur með mín eigin húsgögn í kringum mig að þá gengur það dæmi ekki upp. 

Þrátt fyrir hósta og tilheyrandi þá urðum við að ná okkur í tilbreytingu af einhverju tagi þegar Kristinn kom heim úr kórferðalaginu fyrr í vikunni og við skelltum okkur meðal annars á útsölu í Gap Kids. Og hvað haldiði að hafi verið fyrir utan búðina í þessari fallegu verslunarmiðstöð? Hringekja! Svo dásamlega flott og gamaldags að við gátum ekki staðist það að hoppa um borð. Erik Ómar fór tvær ferðir með pabba sínum. Fyrst var hann dálítið smeykur og vildi bara sitja í öruggu sæti. Í seinna skiptið gat hann ekki beðið eftir að fá að prófa hestinn. Hann hoppaði og skoppaði af kátínu.

Við fórum líka í skemmtilegan göngutúr út á leikvöll í vikunni og eltum stóra strákinn okkar til skiptis út um allan garðinn. Hann heilsaði hverju einasta tré í augsýn, elti laufblöðin sem léku sér í golunni og fór margar, margar ferðir í rennibrautinni.

Við hjónin stálumst líka til að taka nokkrar kjánalegar myndir af okkur sjálfum á meðan drengurinn var í rennibrautinni. Það sem ég elska þennan mann mikið!

0

Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published.