veikindi, feluleikur og framfarir

Einhvern tíman á lífsleiðinni komst ég að því að börn fæðast ekki með fæðingarbletti. Þeir birtast smám saman eftir því sem barnið verður eldra. Hjá Erik Ómari byrjuðu þeir að birtast um tveggja ára og ég get sagt ykkur það að þetta eru sætustu fæðingarblettir sem til eru. Aldrei hefði mig grunað að það væri svona gaman og krúttlegt að finna nýja fæðingarbletti á barninu sínu. Ég gæti kysst þá endalaust.

Annars er ekki mikið búið að gerast hjá okkur þess viku sem Kristinn er búinn að vera í burtu. Við höfum eytt dögunum inni, lasin, öll í hrúgu með hor og hósta og ég veit ekki hvað. Við höfum hangið í náttfötunum til rúmlega þrjú suma daga og horft á Daniel Tiger oftar en mig langar að viðurkenna.

Við gerðum nú samt eitthvað af viti inná milli. Við bökuðum til dæmis bananabrauð. Erik Ómari finnst voðalega gaman að fá að “mixa” og hleypur alltaf til þegar hann sér að mamma er komin með skál og sleif í hönd. “Addí ossó missa” segir hann. Sem þýðir “Addí also mixa”. Hann kallar sjálfan sig Addí og ég var lengi að átta mig á hvernig hann fékk Addí út úr Erik Ómar. En svo kom það til mín. Ég kalla hann “ástin mín” nánast jafn oft og ég kalla hann Erik Ómar svo ég hef sterklegan grun um að Addí sé komið af “ástin mín”. Hann er svolítið sætur. Og svo duglegur að hjálpa mér.

Hann er alltaf að bæta við sig orðum og það nýjasta er “careful” og “sorry”. Eða eins og hann segir það: “kefú” og “sóí”. Hann er líka farinn að prófa “please” og hef ég heyrt hann segja það tvisvar hingað til. Það er greinilegt að ensku orðin koma fyrr heldur en þessi íslensku og verð ég að viðurkenna að þau eru auðveldari að segja svo það er kannski ekkert skrítið.

Hann er líka duglegur að bjarga sér. Og klifra alls staðar sem hann getur. Hann vildi þvo sér um hendurnar um daginn og fór inn í stofu og náði sér í lítið borð þar og rogaðist með það inní eldhús.

Aron Ívar er alltaf sama brosið sama hvað á gengur. Hann hefur dottið nokkrum sinnum á hausinn eins og litlum strákum sæmir. Hann er eiginlega of duglegur að standa upp alls staðar og teygja sig í allt sem honum dettur í hug. Honum liggur voða mikið á að læra að ganga og í gær stóð hann sjálfur og óstuddur í heilar fimm sekúndur! Það var sko mikið fagnað. Ég veit ekki hversu mikið ég fagna þegar hann verður farinn að hlaupa á eftir bróður sínum og elta hann út um allt. Það verður stuð.

 

Smá brot úr feluleiknum okkar um daginn:

0
Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published.