Við eru komin aftur til Kaliforníu eftir ævintýralega og langa ferð til baka. Þessir fyrstu dagar hafa verið alls konar. Byrjuðum á smá veikindum hjá stóra stráknum mínum og tókum okkur svo nokkra daga í að snúa sólarhringnum við. Aftur. Það hefur reyndar gengið betur í þetta skiptið. Ætli okkur hafi nokkuð tekist að snúa okkur almennilega yfir á íslenskan tíma.
Það var svo fallegt að sitja í bílnum á leiðinni út á flugvöll og horfa á dásamlegan fjallahringinn allt um kring. Í hvítum jakkafötum og glitrandi dagsbirtan stráði glimmeri út um allt. Ég elska landið mitt og sakna þess strax.
Síðasti slökunarmorguninn okkar heima var voða notalegur. Við borðuðum seríós og horfðum á Póstinn Pál. Öll í hrúgu á stofuteppinu í íbúðinni hennar ömmu. Takk amma fyrir að lána okkur kotið þitt.
Ég ætlaði alls ekki að vera á síðustu stundu daginn sem flugið okkar var en auðvitað endaði það samt þannig. Af hverju gerist það alltaf? Þessi sætu frændsystkini fengu að knúsa hvort annað í síðasta sinn í bili. Það er þó ekki langt í næsta knús því við erum búin að kaupa flugmiða aftur heim í lok maí. Vúhú!
Þessir bræður voru svolítið mikil krútt á flugvellinum. Báðir spenntir yfir flugvélunum þó annar hafi verið meira spenntur en hinn. Aron Ívar brosti og skríkti framan í alla og Erik Ómar vildi bara skoða flugvélar.
Það styttist í að Kristinn fari í kórferðalagið sitt og verði í burtu frá okkur í rúma viku. Ég er því byrjuð að æfa mig í svefnrútínunni upp á eigin spýtur. Það hefur tekist ótrúlega vel. Lykillinn er að hafa þá báða nógu þreytta. Þá gerast svona krúttleg móment.
Sitthvoru megin við mömmu sína. Alveg dásamlegt. Og sofnuðu á fimm mínútum.
Við eyddum eftirmiðdeginum í Orange á meðan Kristinn fór á kóræfingu. Erik Ómar var í skýjunum yfir gosbrunninum sem er á torginu í Downtown Orange og hljóp með bílinn sinn hring eftir hring. Hann var ekki lengi að vingast við tvíburabræður sem voru að dansa þarna í kringum vatnið líka. Hann hljóp til þeirra, knúsaði þá og svo fóru þeir allir að hlaupa í kringum gosbrunninn. Gleðin sem þessi drengur málar lífið með á hverjum degi er einstök.
Hvað mun þetta ár hafa í boði fyrir okkur litlu fjölskylduna? Það er engin leið að vita en við bíðum spennt og reynum að taka öllu með opnum örmum. Ég veit að minnsta kosti hvað dagurinn í dag hefur uppá að bjóða. Áhorf á Sense and Sensibility í minningu Alan Rickman. Snökt.
0