litlar hendur og litlar framfarir

Þeir vildu báðir leika með bílana í morgun. Lítil hönd elti aðra litla hönd. Saman eltu þær hvor aðra og léku sér á bílateppinu.

Það var bökuð kaka í vikunni. Ekki veit ég hvernig okkur datt í hug að skilja hana eftir á borðinu þar sem litlir klifurkettir komast auðveldlega á bólakaf í súkkulaðið. Kannski til þess að verða vitni að svona atvikum. Það jafnast ekkert á við djúsí súkkulaði til þess að sparka manni af stað út í daginn.

Þeir taka framförum til skiptis þessir englar mínir og í morgun náði sá yngri að setjast upp alveg sjálfur. Hann hefur verið að æfa sig að styrkja fæturnar og undanfarið hefur hann dansað svolítið á fótunum með rassinn út í loftið. Hann fer fyrst uppá hnén og spyrnir svo í með fótunum. En aldrei hefur hann komist neitt þannig þó hann ætli sér margt. Loksins tókst honum að fara af maganum og setjast upp alveg sjálfur. Dagurinn fór því í að fínpússa tæknina. Ég elska svona litlar framfarir. Þær lýsa upp daginn. (34) #365þakklæti

0
Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published.