laugardagur með súkkulaðimolum og bláberjum

Við vöknuðum öll sársvöng í morgun og ákváðum að þetta væri pönnukökumorgun. Með súkkulaðimolum og bláberjum. Hjálparhellan var ekki lengi að stökkva upp á borðið og hjálpa til. (35) #365þakklæti

Eftir morgunmatinn vildi hann fara út í garð að leika sér og auðvitað leyfðum við honum það. En þar sem það er enginn sandkassi í garðinum þá finn ég drenginn yfirleitt í blómabeðinu. Að róta með priki í moldinni inn á milli plantna og laufblaða. Eða að moka yfir sig moldinni með höndunum.

Hann kann líka alveg að koma sér vel fyrir þegar hann vill slaka á og finnst yfirleitt best að kúra undir öllum púðunum með spjaldtölvuna…

… og þessar dásamlegu tær hreyfðust í takt við tónlistina í leiknum sem hann var að dunda sér í. Þær stungu sér svo krúttlega upp á milli púðanna að ég stóðst ekki mátið að taka mynd.

Við ákváðum í dag að það væri kominn tími til að Aron Ívar fari að sofa í sínu eigin rúmi. Við fengum rimlarúm fyrir einhverjum vikum síðan en þar sem það passaði ekki inn til okkar þá hélt hann áfram að sofa í okkar rúmi. Nú er hann hins vegar kominn á svo mikla ferð að það er ekki öruggt að láta hann sofa þar einan á daginn. Við fórum því í allsherjar framkvæmdir í dag við að snúa öllu á hvolf í herberginu okkar til þess að láta rúmið passa. Það var inni í herberginu þar sem Erik Ómar sefur en við getum eiginlega ekki látið þá báða sofa þar. Ekki ennþá að minnsta kosti. Þeir myndu bara vekja hvorn annan til skiptis og það færi allt í vitleysu. Okkur tókst að láta rúmið passa og nú byrjar hið skemmtilega ferli að venja barnið á sitt eigið rúm.

0
Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published.