lakkrístoppar og átta mánaða gaur

Við fengum sent Nóa Siríus rjómasúkkulaði og lakkrískurl frá mömmu og pabba þrátt fyrir að værum að koma heim um jólin. Mamma vildi endilega að ég gæti bakað lakkrístoppa í desember svo auðvitað skelltum við í þá dásemd. Ég var pínulítið með hjartað í buxunum því eins og þeir vita sem hafa bakað lakkrístoppa að þá er þetta mjög vandasamt verk ef takast á vel til. Það má ekki baka þá of stutt og ekki heldur of lengi. Ofninn sem við erum með hér er frekar skrítinn og amerískur svo ég var alls ekki viss hvort þetta myndi takast. En sem betur fer tókst þetta alveg dásamlega vel! Ég fylgdist með hverri mínútu sem tifaði hjá á meðan þeir voru í ofninum og ég var svo þakklát að ég knúsaði næstum því ofninn. (37) #365þakklæti

Aron Ívar tók sundsprett í pokaflóði í gær. Það fannst honum mjög gaman og mun skemmtilegra að leika sér með plastpoka heldur en dótið sitt. Það jafnast fátt við svona hjálparhellur. (38) #365þakklæti

Hann hefur líka greinilega verið að fylgjast með bróður sínum því hann veit alveg hvernig bílabrautin virkar. Hann getur setið endalaust fyrir framan hana með kubba og látið þá renna niður.

Þetta litla skott varð svo 8 mánaða í dag og hann fagnaði því með alls konar framförum síðustu tvo daga. Hann byrjaði að skríða á mánudaginn en hann kemst miklu hraðar yfir á maganum svo hann grípur svolítið til þess ennþá. Ég er svo þakklát fyrir hvern dag sem þessi moli hefur verið í lífi mínu. (39) #365þakklæti

Hann stóð upp alveg sjálfur í gær en þar sem ég var einmitt að svæfa Erik Ómar á meðan þá gat ég ekki tekið mynd af því. Hann var að dunda sér á gólfinu við hliðina á mér á meðan og allt í einu studdi hann sig við mig og stóð upp. Þvílíkur kraftur í honum. Hann hefur hins vegar ekki náð því aftur ennþá en hann æfir sig af miklum móð og er mjög nálægt því að ná tökum á þessu.

Ég náði loksins almennilegri mynd af bossadansinum hans. Svona gerir hann oft á dag. Áður en hann reynir að skríða. Áður en hann reynir að standa upp. Eða bara í gamni og syngur með.

0
Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published.