fyrstu dagarnir á íslandi

Þá er komin miklu meira en vika síðan við komum hingað og löngu kominn tími á smá orðaflækju. Það er erfiðara en maður heldur að setjast niður og skrifa hugsanir sínar þegar börnin manns eru á vitlausum tíma. Hér hefur verið fjör til rúmlega miðnættis og miklu meira en það síðan við komum til landsins. Greyin mín litlu eiga eitthvað erfitt með að snúa sólarhringnum við.

Eftir langt og frekar erfitt flug lentum við loksins á landinu okkar fagra. Það var yndislegt að labba út í ískalt morgunloftið og anda að sér brakandi fersku íslensku lofti. Erik Ómar var svo glaður að hitta ömmu sína og afa aftur og hann var ekkert lítið spenntur að fara í snjógallann og leika sér í snjónum.

Litli maðurinn sofnaði og svaf mestallan daginn í sófanum. Hann svaf lítið í flugvélinni svo þetta var kærkomin hvíld fyrir lítinn stúf.

Erik Ómar keyrði sig út fram að kvöldmat. Þá sofnaði hann ofan í matinn sinn.

Við erum búin að hafa það voðalega gott hingað til. Það er yndislegt að vera innan um fjölskyldu og vini aftur. Aron Ívar er farinn að skríða og stendur núna upp alls staðar þar sem aðstæður bjóða uppá það. Hann eltir bróður sinn út um allt. Líka upp stigann. Að minnsta kosti upp í fyrsta þrepið.

Þar sem þeir eru ennþá á amerískum tíma að þá er oft fjör og gaman hjá okkur á nóttunni. Það hefur verið voða vinsælt að kubba og byggja turna milli klukkan þrjú og fjögur. Mömmunni til mikillar gleði.

En þetta er nú allt að koma núna held ég. Loksins eftir næstum tvær vikur í nýju tímabelti. Þeir eru svo sætir að við fyrirgefum þeim þetta strax. Á meðan ég sofna ekki standandi þá er þetta allt í lagi.

Það er nokkuð ljóst að yngri fjársjóðurinn minn elskar tónlist. Hann syngur sig í svefn í bílnum og snarhættir að gráta þegar við kveikjum á fallegum tónum. Hann stillir sér líka upp við hliðina á þeim sem spila á píanóið. Það er dálítið krúttlegt.

Svo komu jólin og allur sá dásamlegi undirbúningur. Það er orðaspjall með myndum út af fyrir sig.

0
Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published.