dimmraddað afalegt raul

Ég gerði dauðaleit að tannbursta eldri sonarins í kvöld og fann hann loksins á bólakafi í dótakassanum. Burstinn sá hefur án efa fengið lit í sína litlu tilveru og fengið að vera geimflaug í einn dag eða eitthvað álíka.

Ég var svo þakklát fyrir kaffið mitt í morgun. Við skulum bara segja að þegar svefninn er rofinn á tíu mínútna fresti að þá er kaffið eins og líflína. Það leið samt örugglega lengra á milli blundanna en tíu mínútur en mér leið þannig í morgun þegar svefninn var farinn og morgunglaðir drengir heimtuðu að mamma færi í sokka og peysu og tæki þátt í ísköldum deginum. Húsið er frystikista á morgnana. En hvað sem því líður þá var ég þakklát fyrir kaffið sem eiginmaðurinn gerði áður en skóladagurinn gleypti hann. (32) #365þakklæti

Ég ætlaði líka að skrifa eitthvað voða merkilegt og henda inn fullt af myndum en það er bara ekki hægt því litli monsinn rígheldur í nærveru mína og heldur uppteknum hætti að rumska á tíu mínútna fresti.

Þeir léku sér svo skemmtilega í dag þessar elskur. Erik Ómar leyfir Aroni Ívari að klifra yfir sig eins og honum listir. Eða svona yfirleitt.

Baðtíminn í kvöld var sérstaklega skemmtilegur þar sem yngri sonurinn sýndi held ég bara öll sín skondnu andlit. Hann er svo dásamlegur þegar hann er að prófa röddina sína. Þetta er einn af mínum uppáhalds svipum. Þessum fylgir yfirleitt eitthvert dimmraddað afalegt raul. Svo hallar hann undir flatt og réttir það sem hann heldur á út í loftið og snýr því á alla kanta. Mömmuhjartað hlær út í eitt.

0

Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published.