rúllandi appelsína og frumlegt jólatré

Yfirleitt hef ég engan tíma til þess að henda orðum hingað inn nema á kvöldin þegar strákarnir eru sofnaðir. Þá sest ég niður í rólegheitunum og nýt kyrrðarinnar sem flýtur um húsið og hnoða litla texta. Síðustu tvö kvöld hef ég misst af þessu einstaka tækifæri þar sem við hjónin höfum bæði steinsofnað við svæfa sitthvorn drenginn. Kristinn hrýtur inni hjá Erik Ómari þar til hann hrekkur upp um miðja nótt vekur mig þar sem ég hef sofnað í kuðli með loksins sofandi snáða við hlið mér. Ég held að ég fari í náttföt og bursti tennurnar áður en ég svæfi í kvöld ef þetta skyldi gerast aftur. Að staulast fram úr um miðja nótt, ennþá í fötunum með óburstaðar tennur og maskara út á kinn er ekki það skemmtilegasta sem ég hef gert síðustu tvo daga.

Á fimmtudaginn var þakkargjörðarhátíð og var okkur boðið með vinafólki okkar út fyrir borgina og hálfpartinn út í sveit. Við borðuðum stórkostlega máltíð innan um fjölda manns sem við þekktum ekki neitt en það var allt í lagi því allir voru voða yndislegir og buðu okkur velkomin. Amman á svæðinu var yfir hundrað ára gömul og samt stífmáluð í framan. Hún var algjört krútt með skræka háværa rödd sem hrópaði yfir allt með reglulega millibili því hún heyrði svo illa. Ég hló inní mér í hvert skipti því þetta var allt voða kómískt. Strákarnir létu líka vel í sér heyra og heilluðu alla upp úr skónum. Við erum mjög þakklát fyrir þennan dag og að hafa fengið að njóta hans með góðu fólki. Við fórum í göngutúr um lóðina sem var yfirfull af avakadó trjám og brakandi laufblöðum. Erik Ómar hljóp um allt með appelsínu sem hann fann og vildi ekki sleppa. (28) 365þakklæti

Pabbinn tók sig vel út með yngri soninn á meðan mamman hljóp á eftir þeim eldri. Það hélt að minnsta kosti á mér hita. Það var frekar kalt en við erum einhvern veginn föst í þeirri hugsun að við séum í Kaliforníu og þess vegna verði ekki svo kalt. Við klæddum þó strákana í peysur yfir skyrturnar og sokkabuxur undir buxurnar svo þeim varð ekki svo kalt.

Appelsínan fékk ekki að fara fyrr en drengurinn fann lítinn traktor sem fangaði alla hans athygli. Það var heldur betur skemmtilegt og greyið appelsínan rúllaði alla neið niður innkeyrsluna (sem var brekka) og niður á veginn. “Ónó!!” heyrðist í mínum sem ætlaði að hlaupa á eftir henni en hætti síðan við og fór að keyra traktorinn.

Gærdagurinn var í rólegri kantinum hjá okkur. Við fórum í smá bíltúr seinni partinn og leituðum að jólatrjám til að skoða. Erik Ómar er svo spenntur fyrir jólatrjám núna og er alveg tilbúinn í að skreyta tréð heima á Íslandi. Hann æfði sig í gærkvöldi á litla gervitrénu sem við keyptum okkur í fyrra. Við eigum voða lítið jólaskraut hérna svo hann notaði það sem var hendi næst. Skápalæsingar.

Ég er svo þakklát fyrir hugmyndaflugið hans og þá gleði sem hann gefur mér á hverjum degi. Spurning hvort við höldum þessu bara svona? (29) 365þakklæti

0

Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published.