lítil hjörtu og óveður í Los Angeles

Undur og stórmerki gerðust í dag. Það kom óveður hér á Los Angeles svæðinu. Svo mikill vindur að hárin hreyfðust á höfði fólks. Erik Ómar var alveg hissa og klappaði sér á höfðinu í sífellu og sagði: “úff”. Og skýin láku meira að segja svolítið líka. Aron Ívar var svo spenntur að hann spriklaði sér næstum því úr fanginu mínu. Þessi kraftmikla gola var dásamleg og minnti mig mikið á Ísland.

Annars einkenndist þessi dagur af læknisheimsókn morgunsins og öllum þeim sprautum sem því tilheyrðu. Við hentum því öllu útí buskann og fórum í Toys’R’Us að leika okkur í bílunum. Tvö lítil hjörtu voru heldur betur kát með þá ákvörðun og ein þreytt mamma var voðalega þakklát fyrir gleðina sem skapaðist í kringum uppátækið. (8) #365þakklæti

Erik Ómar var spenntastur fyrir slökkviliðsbílnum og sat lengi í honum að stýra og sprauta og söng “babú, babú” af hjartans list. Hann vildi endilega að litlir bróðir fengi sér sæti hjá honum og saman voru þeir mjög einbeittir að skoða þennan flotta bíl. 

Við áttum líka mjög skemmtilega stund í garðinum í morgun þar sem strákarnir renndu sér saman niður litlu rennibrautina sem við erum með þar. Þetta móment var alveg dásamlegt. Það var eins og Aron Ívar væri að biðja fyrir ferðinni niður: “Góði Guð, viltu blessa þessa ferð niður rennibrautina. Amen!”

Hann dúllast svo mikið með hendurnar sínar núna, alltaf að klappa eða spenna greipar eða halda þeim saman í kuðli. Hann er svo flinkur að taka upp dót og skoða það á alla kanta og troða því uppí sig. Hann horfir líka stórum löngunaraugum á eftir bróður sínum sem hleypur út um allt og reynir að elta hann á maganum. Ég sé mikið fjör í uppsiglingu. 

0
Share:

1 Comment

  1. Keithbaritone
    November 3, 2015 / 11:32 am

    beautiful story and description of your day.I wish I could be there with all of you! I am so glad Asta is sharing these days with you. Lovelove

Leave a Reply

Your email address will not be published.