kveðjustund

Kveðjustund. Eftir að hafa keyrt þvert yfir Bandaríkin á gamla Volvo-stálinu og verið hjá okkur í tíu daga kvaddi amma Ásta okkur í dag. Það er búið að vera ómetanlegt að hafa hana hjá okkur og hjálp hennar, stuðningur og félagsskapur var mér svo mikils virði þar sem Kristinn hefur nánast ekkert verið heima síðustu tvær vikurnar vegna skólans. Bryndís systir hans Kristins kom svo frá Stockton og var hjá okkur um helgina sem var yndisleg viðbót við mannskapinn. Þær mæðgur keyrðu svo saman upp til Stockton aftur þar sem Bryndís ætlar að taka yfir bílinn og sýna honum nýjar slóðir í Norður Kaliforníu. Amman flýgur svo til New York til afans á þriðjudaginn og saman munu þau pakka saman heimilinu sínu þar áður en þau flytja aftur til Íslands í byrjun desember. Það verður skrítið að hafa þau ekki “innan handar” hér í Bandaríkjunum lengur og munum við sakna þeirra mikið.

Þessi flotti og duglegi maður kvaddi því mömmu sína í dag eftir yndislega daga. Við erum svo þakklát fyir þennan tíma og það var sérstaklega erfitt fyrir Erik Ómar að kveðja ömmu sína þar sem hún hefur verið í miklu uppáhaldi síðustu daga. Þau eru búin að byggja óteljandi turna úr kubbum, keyra um fornar slóðir á smábílum og spila svo mikinn fótbolta að boltinn sprakk á endanum. Takk fyrir okkur elsku amma Ásta. (14) #365þakklæti

Við eyddum síðasta deginum okkar saman í Barnes and Noble og byrjuðum auðvitað á því að fá kaffa okkur upp á Starbucks því við erum kaffisjúk og ekki hægt að rölta um bókabúð án þess að vera með kaffi í hönd. Erik Ómar vissi um leið hvar við vorum og var ekki lengi að biðja um köku og epladjús. Hann fékk bláberjamöffins og var með bláberjaklessur á buxunum sínum það sem eftir var dagsins. Síðan brunuðum við í Downtown Disney og löbbuðum þar um á meðan sólin lækkaði á lofti. Litlu strákarnir sváfu reyndar allan tímann sem var voða notalegt. Við stálumst í eina selfie í tilefni dagsins.

Það er frekar tómlegt hjá okkur núna en svosem ágætt að komast í okkar rútínu aftur. Það er líka dásamlegt að vera búin að endurheimta manninn minn í bili. Þessi vika er mjög róleg hjá honum og hlökkum við mikið til að fá hann heim á löglegum tíma næstu daga. 

0
Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published.