heimsókn til pabba // vatnafjör

Eftir góðan hádegislúr var öllum pakkað í bílinn og við brunuðum að heimsækja pabba í skólann. Það var örugglega það yndislegasta sem við gátum gert af okkur í dag. Dagarnir eru svo hrikalega langir þegar Kristinn er í skólanum allan daginn svo það gefur okkur svo mikið að geta heimsótt hann þegar hann er í langri eyðu. Amman og bíllinn hennar hafa verið vel nýtt þessa daga sem hún hefur verið hér. Við byrjuðum á því að smella af okkur einni fjölskyldumynd á Starbucks. Við vorum komin örlítið á undan og biðum spennt eftir að pabbi kæmi. Þegar hann loksins kom inn um dyrnar var Erik Ómar ekki lengi að hlaupa í fangið hans með galopinn faðminn. Augnablikið var svo töfrandi að helst vildi ég ramma það inn.

Downtown Orange er alveg ótrúlega fallegur staður. Margar litlar og fornar búðir með sjarma frá 1970. Risastórt hringtorg er í miðjum bænum þar sem trén vaxa hátt til himins, páfagaukar fljúga á milli greinanna og garga sín á milli og á því miðju er fallegur gosbrunnur sem gaman er að hlaupa hringinn í kringum. Það var svo gaman að sitja bara og njóta með kaffibolla í hönd.

Erik Ómar hljóp um allt með litla bílinn sinn. Hring eftir hring. Hann fékk að sulla með höndunum í vatninu. Hann keyrði bílinn sinn eftir öllu sem hægt var. Svo eignaðist hann lítinn vin. Strákur á sama aldri var þarna með mömmu sinni og það var heldur betur fjör hjá þeim. Þeir hlupu saman hring eftir hring og hlógu svo mikið að hvor öðrum. Dásamlegt. 

Það þarf stundum svo lítið til að gleðja litlar sálir og þessi stund var svo mikil gleðisprengja fyrir Erik Ómar. Hann fann líka lítinn gosbrunn sem var svo gaman að leika sér með, sprauta vatni og verða blautur niður á tær. Það var mikið hlegið og sagðar alls konar sögur um vatnsdropana. (9) #365þakklæti

Við borðuðum síðan kvöldmat á uppáhaldsstaðnum mínum í Orange. The Pizza Press. Þessi staður er svo sjarmerandi og fallegur. Pizzurnar eru þær bestu sem ég hef nokkurn tímann smakkað og yfirbragðið er allt í þessum gamla, svarthvíta, dagblaða stíl. Það var samt held ég enginn eins spenntur að fá pizzuna sína og eldri sonurinn. Hann kláraði allan matinn sinn, sem er afrek þessa dagana, og brosti sínu breiðasta eftir hvern bita. Hann er svo mikil gull þessi sonur minn.

Það var loksins keyptur bali til að baða litla manninn í og vel við hæfi að vígja hann í kvöld eftir góðan dag og mikið vatnafjör. Honum fannst það ekki leiðinlegt og svamlaði með öndunum í volgu vatninu. Þangað til stóri bróðir rak hann uppúr svo hann gæti prófað líka. 

Þessi litli veit sko alveg hvað hann vill. Það verður ekki langt þangað til hann verður farinn að svara fyrir sig. Hann er nú þegar farinn að grípa í hárið á bróður sínum og hlæja dátt. 

0
Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published.