“essa nammi”, eldhúsafrek og púsluspil

Ég skrifaði ekki orð í gær. Einfaldlega vegna þess að ég sat á sófanum og starði út í loftið þangað til ég fór að sofa. Það er að segja þegar strákarnir voru sofnaðir. Ég ætlaði að gera ótal margt. Var með lista og allt. En þreytan var svo yfirþyrmandi að ég gat ekki hugsað mér að gera nokkuð annað en að sofa. Í morgun var ég svo heppin að ég fékk að sofa örlítið lengur á meðan eiginmaðurinn tók strákana að sér. Ég vaknaði svo við ilminn af himneskum pönnukökum með bláberjum. Reyndar vaknaði ég við litla tveggja ára skottið sem hoppaði ofan á mig. En pönnukökuilmurinn kom svífandi inn í herbergið á eftir honum.

Þegar Kristinn var farinn í skólann naut ég þess að leika við litlu gullin mín. Þeir eru svo góðir að byggja turna saman, eða “tow-y” eins og Erik Ómar segir. Hljómar eins og “tower” nema með þetta ofboðslega krúttlega y-hljóð í endann. Nokkuð eins og “tá-í” á góðri íslensku. Þessar litlu táslur þarna björguðu líka deginum mínum. Svona stundir eru dásamlegar og ég er svo þakklát fyrir táslur, kubba og kærleikann sem ríkir á milli þessara bræðra. (24) #365þakklæti

Erik Ómar er algjör púslmeistari. Honum finnst svo gaman að púsla og það er ótrúlegt að sjá hvað hann er fljótur að ná hverju púslinu á fætur öðru. Við komum með fjögur púsluspil með okkur hingað út. Þrjú sem eru svipuð og þetta af traktornum sem hann kann núna nánast utan að. Við erum svo að byrja á því fjórða sem er aðeins erfiðara en ég er spennt að sjá hvað hann verður fjótur að ná því.

Ég hef verið að leita að hinum fullkomnu hrísgrjónum til að gera grjónagraut hérna í Bandaríkjunum. Og ég fann þau loksins. Gerði graut fyrir sjö manns þó við séum bara þrjú sem borðum hann. Ég var svo ánægð að ég tók mynd. Voila!

Þessi var líka voða ángæður með mömmu sína og fagnaði ákaft með mér. Við erum dálítið góð saman í eldhúsinu.

Kristinn er kominn í þakkargjörðarfrí í skólanum. Thanksgiving er í næstu viku og þau fá alla vikuna í frí. Þvílík dásemd. Við fögnuðum með því að skreppa í Target. Erik Ómar lætur yfirleitt alla búðina vita af sér. Það er alltaf gaman. En hann var mjög góður inná milli í þessari ferð. Bjó til turna úr barnagrautnum til dæmis. Svo leit ég við eftir að hafa tekið eftir dularfullri þögn úr kerrunni. Og jújú, var litli maðurinn ekki bara búinn að opna súkkulaðið og byrjaður að gæða sér á því. “Essa nammi”. Ég veit vinur. Súkkulaði er voðalega gott.

Eftir að hafa horft á foreldra sína versla jólagjafir handa fólkinu á Íslandi í óratíma var ekki annað hægt en að gefa krúttinu eplasafa að launum. Það er Starbucks við innganginn á búðinni og í hvert sinn sem hann sér Starbucks þá hrópar hann “appúdús”. Það er svo einlægt að auðvitað fáum við okkur kaffi og epladjús.

0

Share:

2 Comments

  1. Jóhann
    November 21, 2015 / 7:40 pm

    Á ekkert að láta mann vita hvers konar hrísgrjón?? 😉

  2. annalilja
    November 21, 2015 / 10:41 pm

    Haha 🙂 þau heita Original Instant Enriched White Rice. Blár pakki, keyptur í Ralphs 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published.