biðjum fyrir heiminum

Hjarta mitt grét í dag vegna alls hins illa í heiminum. Það er svo margt sem ég skil ekki, svo margt sem er ósanngjarnt, svo margt sem er hreint og beint hræðilegt. Megnið af fréttunum inná mbl.is eru hrikalegar sögur af morðum, misþyrmingum og banaslysum. Þegar hryðjuverkin í París byrjuðu að fylla alla samfélagsmiðlana þá fylltist hjarta mitt af sorg og vanmætti yfir að geta ekki gert neitt í þessum aðstæðum. Það hræðir mig stundum að börnin mín eru að alast upp í þessum heimi og ég get bara verndað þau upp að vissu marki. Ég bið til Guðs á hverjum degi og bið hann að vernda þau, blessa og umvefja kærleika sínum svo þau megi vera ljós í myrkrinu. Og ég bið til Guðs í dag um að sýna sig og sinn kærleika í þessum hræðilegu kringumstæðum. Verum góð hvert við annað. Sýnum kærleika í garð náungans og hjálpum þeim sem þurfa á hjálp að halda. Reynum að mála hversdagsleikann með jákvæðum litum og upphefja það sem veitir gleði og reynum að troða kærleika í allt sem við gerum og taka hann með hvert sem við förum.

Þakklætið að þessu sinni fer til yngri sonarins sem var svo duglegur að hjálpa mömmu sinni að losa brjóstastíflu í dag. Ég er svo fegin að við náðum að losa hana áður en sýking komst í þetta. Það er með því versta sem ég hef upplifað. (19) #365þakklæti

Það er svo gott að geta stundum bara gleymt sér í sakleysi barnanna sinna og dáðst að því hvað þau eru sniðug og þurfa svo lítið til að vera glöð. Mínir drengir spara heldur ekki knúsin svo ég umvef mig elsku þeirra og áhyggjuleysi. Ég ætti kannski bara að koma mér vel fyrir í þvottakörfunni líka og lesa góða bók.

Erik Ómar er líka voðalega hrifinn af koppnum sínum þessa dagana en hann vill helst nota hann sem stól. Hann lítur á hann sem góðan stað til þess að tylla sér þegar manni langar í gott eftirmiðdagssnakk eins og vínber eða eplabita. 

Aron Ívar er voða forvitinn lítill maður og teygir sig í allar dótakörfurnar hans bróður síns. Hann eltir boltana hans út um allt, setur kubbana hans upp í sig og klappar saman höndunum með bílana hans á milli. Hann er líka mjög nálægt því að standa upp sjálfur svo ég reyni að hafa myndavélina innan seilingar þar sem við erum að leika okkur. 

Biðjum fyrir heiminum, þökkum fyrir það góða og föðmum börnin okkar, maka, fjölskyldu og vini. Segjum “ég elska þig” oft á dag og smellum kossi á kinnar og dreifum hlátri eins og ókeypis sælgæti. 

0
Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published.