alls konar óvænt

Ég fékk pakka frá amazon.com í dag og furðaði mig á því hvað ég hefði eiginlega verið að panta. Kom þá í ljós að þetta var óvænt gjöf frá yndislegri svilkonu og vinkonu, Emily Reed. Svona í takt við myndina sem ég birti í gær. Þetta var eitthvað svo dásamlega óvænt og mér þótti ótrúlega vænt um þessa gjöf. Þessi bók er víst mjög fyndin og ég hlakka til að lesa hana. (11) #365þakklæti

Mér finnst svo óskaplega gaman að fá eitthvað með póstinum svo ef einhver iðar alveg í skinninu að senda mér póstkort þá er það alveg velkomið. 

Eldri sonurinn elskar að byggja turna. Hann raðar kubbunum sínum eins hátt og hann getur og bíður svo einlæglega spenntur eftir að turninn falli. Hann hoppar og dansar í kringum hann með alla anga út í loftið til að hjálpa kubbunum að hrynja. Hann er svo mikið skott. Amman fær ekki frið og er dregin í sífellu inní herbergi að byggja “towy”. Ég er hrædd um að drengurinn verði altalandi á ensku áður en íslenskan hrekkur í gang. Hann hefur verið að blanda þessu svolítið saman.

Yngri guttinn er á fullri ferð núna. Hann æfir sig í sífellu að standa þó hann geti ekki ennþá staðið sjálfur. Hann stóð alveg heillengi í sófanum að horfa á bróður sinn leika sér úti í garði í morgun. Hann dansaði af kæti í hvert skipti sem hann sá honum bregða fyrir og hló og skríkti af hjartans list. Það er svo augljóst að hann getur ekki beðið eftir að fá að hlaupa með honum út um allt. 

Við gerðum síðan alveg ljómandi góða pizzu í kvöldmatinn úr engu hveiti heldur notuðum við blómkál og brokkolí í botninn, ásamt eggjum og osti. Síðan settum við bara það sem okkur datt í hug ofan á eins og maður gerir þegar pizza er bökuð. Þetta var með þeim betri pizzum sem ég hef smakkað og kom mér rosalega á óvart. Það besta var að Erik Ómar hámaði þetta í sig og sönglaði “nammi nammi” eftir hvern bita. Loksins hef ég fundið leið til þess að koma grænmeti ofan í drenginn. 

0
Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published.