“zoom, zoom, zoom” og hláturinn springur yfir allt

Ég lifi í ævintýraheimi. Hver dagur kemur mér á óvart og ég veit aldrei hvert næsta klukkustund mun leiða mig. Stundum er ég risi. Stundum er ég dvergur. Stundum er ég ofurhetja sem þýtur áfram – “zoom, zoom, zoom” heyrist í litlu ofurhetjunni sem fylgir mér. Hann setur hendur fyrir aftan bak, ekki veit ég afhverju, og zoom-ar áfram. Við höldum dagleg danspartí. Sum með tónlist, önnur með okkar eigin hljómum og tónaflóðum. Við byggjum himinháa turna sem síðan hrynja yfir okkur og hláturinn springur yfir allt. Kappakstur er alltaf handan við hornið. Síðan er klifrað á öllum húsgögnum og látið eins og þau séu fjöll og firnindi. Hoppað á rúminu sem er skotpallur út í geim. Við eltum flugvélar og maura, allt eftir því hvert litli landkönnuðurinn leiðir okkur. Augun hans glitra af gleði og krúttleika. Orðin mín týnast stundum, fuðra upp í mómentinu, og ég bara horfi og brosi og hlæ.

Við söknum Íslands alveg svakalega. Kalifornía á ekki til árstíðir. En við fyllum dagana með öðru skemmtilegu. Og höldum svo partí þegar það loksins rignir.

Grænu kortin komu loksins. Fyrir ykkur sem voruð að velta því fyrir ykkur þá eru þau raunverulega græn. Sjáiði bara þessa gutta:

Nú þurfum við bara að sækja um vegabréf fyrir þá og ríkisborgararétturinn verður formlega staðfestur. Jibbí. Þá kaupi ég mér bláberjamöffins. 

Kristinn er auðvitað á fleygiferð að sigra óperuheiminn í Chapman. Hann er í burtu allan daginn svo þið getið ímyndað ykkur gleðina sem ríkir hér þegar pabbi kemur heim. Knúsið og fagnaðarlætin sem hann fær eru svo yndisleg að ég tárast stundum.

Við fórum í kósí oktoberfest mat til vinafólks um daginn. Erik Ómar var í skýjunum á meðal stóru strákanna sem voru alveg til í að leika og við hann. Hann var ekki lengi að ná í hljóðfærin og sýna þeim hvernig á að spila alvöru tónlist.

Síðan datt hann útí tjörnina og rennblotnaði. Fékk grænt slím í hárið og tár í augun. En við skelltum honum í bað og hlýrabol af góðum vini svo hann var sáttur eftir áfallið. Hann fékk líka ís sem læknar öll sár. 

Október er skemmtilegur mánuður og við ætlum svo sannarlega að fara út og leita að haustinu. Stóri strákurinn minn hefur sigrast á ótta sínum við rennibrautir svo nú er það uppáhalds áfangastaðurinn þegar við förum á rólóvöllinn í almenningsgarðinum hérna rétthjá. Haustið hlýtur að leynast einhvers staðar á leiðinni þangað. 

Litli strákurinn minn er að verða 6 mánaða og fangar hjartað mitt á hverjum degi. Hann er svo sterkur og duglegur og slefar eins og hann fái borgað fyrir það. Hann felur þó allan þann aur því ekki hef ég orðið vör við hann. Aron Ívar, þú ert gullmoli.

Hvað ætli morgundagurinn hafi uppá að bjóða?

. . . . 

0
Share:

1 Comment

  1. Keithbaritone
    October 8, 2015 / 9:17 am

    Oh what treasures you discover and untold universes you are witnessing each day with my grandchildren. They are so blessed to have you pour your life and imagination into them. God has seen fit to bring these boys into your lives and will be strong in their lives. We love you both and are so proud of what you are becoming as you follow Jesus!

Leave a Reply

Your email address will not be published.