“ónei! fishy, fishy” // af óperu og öðrum tónum

Í allan dag hef ég reynt að finna leið til þess að útskýra fyrir tveggja ára gömlum syni mínum að fiskarnir hans eru dánir. Síðustu daga hefur hann skemmt sér við að spjalla við þennan eina fisk sem tórði. Ef hann væri agnarsmár hefði hann ekki verið lengi að stökkva ofaní búrið til hans að leika við hann. Ég kom nokkrum sinnum að honum uppá borðinu þar sem búrið stendur, með andlitið yfir opinu, tilbúinn að “stinga sér” ofaní. Hann dansaði reglulega í kringum búrið, sönglandi “fishy, fishy”. Þegar hann tók eftir því í morgun að fiskurinn var horfinn heyrðist ósköp einlægt “ónei!” og svo í kjölfarið “fishy, fishy”. Hann eyddi deginum í að leita að Batman. Það eina sem mér datt í hug að segja var að Batman fór í ferðalag. 

Við erum tiltölulega nýbyrjuð að gefa Aroni Ívari mat að borða til viðbótar við brjóstamjólkina og prófum nýja tegund á þriggja daga fresti. Í dag gaf ég honum sæta kartöflu og það var sko ekki leiðinlegt. Hann elskaði lostætið og var heldur sár þegar það var búið úr skálinni. Hann sagði “mmm” og “namm” í takt við skeiðina sem sigldi upp í hann eina munnfylli í einu. Mikið dásemdarkrútt sem hann er.

Erik Ómar sest stundum við píanóið og spilar eins og pabbi sinn. Hann spilar eina nótu í einu og fer upp og niður skalann. Honum finnst mjög gaman að spila skærustu nóturnar og svo dimmu nóturnar. Það er líka hamrað á þær inná milli. Eins og trommu. Og hlaupið á pedölunum. En hann hefur eyra fyrir tónlist drengurinn og ég hlakka til að sjá hvað hann gerir á því sviði þegar hann verður eldri.

Litlar hendur leika

lítið tónaspil…

Í kvöld er frumsýning á óperustykkinu sem Kristinn hefur verið að æfa frá því í byrjun annarinnar. Opera Chapman kynnir: Shakespeare in Opera. Hann er með tvö verk sem hann syngur, einn dúett og eina aríu. Auk þess syngur hann í kórnum. Ég er svo stolt af honum og hlakka til að fara og hlusta á hann annað kvöld. Hann er nú dálítið mikið myndarlegur þessi eiginmaður minn. 

Annars ætla ég að byrja á þessu verki aftur. Mér finnst það svo fallegt og ég hlakka svo til að hengja það upp jól eftir jól og leyfa strákunum mínum að kíkja í litla pakka fulla af leyndardómum á hverjum degi í desembermánuði. Ætli ég nái að klára þetta fyrir jólin 2016?

0
Share:

2 Comments

  1. Kristinn S. Reed
    October 17, 2015 / 7:13 am

    Það er alltaf svo mikið að gera hjá mér og lítið heima, mikið er ég glaður að þú elskar mig enn 😀

  2. Keithbaritone
    October 17, 2015 / 12:17 pm

    Life is so rich and meaningful. Thank you for another little window to see into your lives. Lovelove

Leave a Reply

Your email address will not be published.