oktoberfest // mánudagsrok

Þrjú lítil orð. Ég elska þig. Ég segi þau við strákana mína á hverjum degi. Oft á dag. Erik Ómar hefur ekki ennþá lært að tjá þetta í orðum en hann gerir það á annan hátt. Hann faðmar mig oft á dag. Knúsar mig eins fast og hann getur og kyssir mig út um allt andlit. Knúsin hans gera dagana svo miklu betri.

Þessi mánudagur var algjör vindhviða. Já eða nokkrar vindhviður. Rok. Erik Ómar byrjaði á því að vakna klukkan sex í morgun. Orkan hlóðst svo upp þegar leið á daginn og um hádegi var hann orðinn á við þrjá litla gorma. Við bökuðum pizzu og Aron Ívar fékk graut. Eina leiðin til að þrífa okkur eftir það ævintýri var að skella öllu liðinu í sturtu. Síðan var haldið danspartí í stofunni. Við lásum margar bækur. Ofurhetjan mætti á svæðið og klifurkötturinn. Dótinu var hent út um allt. Allt sem má ekki var ítrekað framkvæmt með miklum viljastyrk. Litli bróðir náði loksins að sofna en sá eldri vildi endilega vekja hann þegar hann áttaði sig á að hann var hvergi sjáanlegur. Það var barist um hurðina að svefnherberginu. Ég mútaði honum með uppáhalds barnaefninu. Það má stundum.

Á sunnudaginn skruppum við á Oktoberfest. Það er alltaf skemmtileg upplifun. Tónlistin, dansarnir, dressin, jóðlið, maturinn, hitinn, lætin. Það er ekki hægt að tala saman án þess að hrópa. Erik Ómar var svo spenntur yfir þessu öllu saman. Hrópaði og hló og benti í allar áttir.

Við entumst þó ekki lengi inní hátíðartjaldinu og fórum með hann á leiksvæðið. Það var toppurinn hjá honum. Hann fékk að fljúga flugvél. Hann elskar flugvélar. Veifar þeim öllum þegar þær fljúga yfir þar sem við erum. Ég var ekki viss hversu lengi hann myndi vilja vera í tækinu en hann var svo duglegur og tók hlutverk sitt sem flugmaður mjög alvarlega.

Aron Ívar var líka furðulega góður í öllum hávaðanum og hitanum. Hann var reyndar orðinn svolítið dofinn greyið þegar leið á svo við flúðum heim á leið eftir þrjá tíma. En það var líka alvega meira en nóg. Við enduðum daginn á lestarferð með lítilli lest sem “ching-ching”-aði sig í gegnum svæðið. Það var ekki hægt að sleppa því þar sem drengurinn er svo yfir sig hrifinn af lestum. Allir um borð!

0
Share:

3 Comments

 1. Keithbaritone
  October 13, 2015 / 12:06 pm

  Yes…. a lot of little things. being mindful and thankful. placing value on the moment, on the sights and smells that right now brings you with your boys….these are precious things! Thank You!

 2. Jóhanna María Friðriksdóttir
  October 13, 2015 / 12:16 pm

  Æði. Takk fyrir að leyfa okkur að fylgjast með ykkur Anna Lilja. Þú ert ótrúlega dugleg að vera heima með þessa tvo orkubolta. Yndislegir 🙂

 3. annalilja
  October 17, 2015 / 5:50 am

  Takk fyrir fallega kveðju og að lesa elsku Jóhanna :* Það er svo gaman að fá að deila smávegis með ykkur heima og ennþá meira gaman að sjá að einhver nennir að lesa það sem ég skrifa.

Leave a Reply

Your email address will not be published.