nótnaspil og hversdagsmyndir

Á þessu heimili byrjar tónlistaráhuginn snemma. Aron Ívar vildi endilega spila nokkrar nótur í dag svo ég leyfði honum það. Hann sat alveg sjálfur og glamraði svona líka fínt á hljóðfærið.

Erik Ómar byrjaði líka að sýna píanóinu áhuga á svipuðum aldri og þótti honum ekki leiðinlegt að hafa Hilmar frænda sér til halds og trausts. Það eru tæplega tvö ár síðan þessi mynd var tekin. Ótrúlegt hvað tíminn líður. 

Við kynntum drenginn fyrir vatni í vikunni og finnst honum voða gott að fá sér nokkra sopa með matnum sínum. Það er líka gaman að gera hávaða með glasinu og skvetta smá dropum hér og þar. 

Þessi litla hönd klappaði í fyrsta skipti í dag. Og þegar hún byrjaði þá var erfitt að stoppa. Ég byrjaði að kenna Aroni Ívari að klappa fyrir örfáum dögum síðan og allt í einu í morgun var hann búinn að ná því svona voðalega vel. Nú klappar hann við hvert tækifæri. 

// tveggja vikna hendur //

Litlar tær eru svo dásamlegar. Og þessar litlu tær veita mér svo mikla gleði. Ég er svo þakklát fyrir að fá að knúsa þær og kyssa. Bráðum fara þær að hlaupa út um allt. En þangað til ætla ég að njóta þess að sjá þær sprikla og reyna að komast þangað sem stóri bróðir fer. Ég ætla líka að njóta þess að sjá þær kíkja undan teppinu þegar friður og ró sest yfir. (4) #365þakklæti

0
Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published.