litlar sögur og amma í fótbolta

Það er alveg ekta ofurgott íslenskt sumarveður hérna hjá okkur núna. Hlýtt en ekki of hlýtt, yndisleg gola og ískalt á nóttunni. Það er haust-hrekkjavöku-tíð og allir að tapa sér yfir haustskreytingum, graskerum og hrekkjavökulátum. Við skruppum í búð í dag og út rúllaði par með stærsta grasker sem ég hef nokkurn tíman séð. Það var það eina í innkaupakerrunni enda komst ekkert annað fyrir. Það verður aldeilis fjör hjá þeim að skera út úr því.

Aron Ívar hefur fundið nýja aðferð til að sjúga snuðið sitt. Þetta finnst honum voða sniðugt og gerir þetta oft á dag. Setur neðri helminginn upp í sig og sýgur það þannig. Kannski klæjar hann í góminn, það eru nú að spretta upp tennur í þessum litla manni.

Við fórum á kórtónleika hjá Kristni í kvöld og það var dásemd. Þessi kór syngur svo fallega og það er svo gaman að sjá hann standa þarna í efstu röð í fínu fötunum sínum að syngja svona vel. Ég er svo stolt af honum. Strákarnir voru auðvitað með og var það pínu skrautlegt en öllum fannst þeir voða sætir og fyrirgáfu lætin í þeim. Erik Ómar hafði mikla þörf fyrir að spjalla um heima og geima í dag svo hann gerði það hvert sem við fórum. Sagði okkur sögur og lýsti öllu sem fyrir augu bar. Það stoppaði svo ekkert þegar við vorum komin á tónleikana og litla röddin hans ómaði um salinn. Það þurfti á endanum að fara með hann út, litlu blaðurskjóðuna. 

Amma kom keyrandi alla leið frá New York til þess að heimsækja okkur og vera hjá okkur í tvær vikur. Hún komst á leiðarenda í gær og höfum við notið nærveru hennar í dag. Það sem stubburinn var glaður að hafa loksins einhvern annan en mömmu sína að leika sér við. Það var samstundis skellt í fótbolta í garðinum og hláturinn ómaði um allt hverfið. Við erum svo þakklát fyrir að fá að hafa hana hjá okkur í þennan tíma. (5) #365þakklæti

0
Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published.