lestarferð og bananabrauð

Það er veikindavika í uppsiglingu hjá okkur þennan mánudaginn. Kristinn var veikur alla síðustu viku og rétt svo náði að koma röddinni í samt lag fyrir sýningarnar um helgina. Núna eru litlu strákarnir mínir farnir að hósta illa og eru voða litlir í sér. Þörfin fyrir mömmuknús er mikil. Þeir skemmtu sér þó konunglega í sturtu með pabba sínum í gærkvöldi. Aron Ívar reyndi ítrekað að grípa vatnið með litla lófanum sínum og Erik Ómar var upptekinn í lestarleik. Þessi drengur er annað hvort með bíl, lest eða flugvél í höndunum hvert sem hann fer.

Lestin hefur verið í miklu uppáhaldi uppá síðkastið og fylgir hún honum meira að segja inní draumalandið. Það hlýtur að vera frábært að fara með lestinni þangað. 

Til að hressa uppá okkur þá bökuðum við bananabrauð í gær. Við gerum það reyndar í hverri viku því það er svo mikið uppáhalds hjá okkur og klárast yfirleitt á núll einni. Erik Ómar hoppar hæð sína af spenningi og hangir nánast á ofninum á meðan brauðið bakast og syngur “banni, banni”. Hann er mikið í stikkorðum þessa dagana en bætir sífellt við sig og ég held að það verði ekki langt þangað til litlar setningar fara að svífa um loftið. 

Biðin eftir brauðinu var heldur erfið enda þolinmæðin lítil þegar veikindi eru annars vegar. Hann var svo hamingjusamur þegar það var loksins tilbúið og vildi helst borða það brennandi heitt, nýkomið úr ofninum. Við eyddum góðum tíma í að blása áður en hann réðst á það með litlu tönnunum sínum. Uppskriftin er þessi fyrir þá sem vilja smakka. Það má að vísu minnka sykurmagnið um nánast helming og gerum við það oft. Þetta er tvöföld uppskrift og passar fínt í stórt brauðform. 

Bananabrauð


1 bolli sykur

2 bollar spelt

1 tsk matarsódi

1 tsk vanillusykur

1/2 tsk salt 

2 egg

4 bananar (stappaðir)

Bakað við 180 gráður í 30-40 mínútur. 

Passið að stinga hníf eða einhverju svipuðu í miðjuna áður en brauðið er tekið úr ofninum til þess að gá hvort það sé tilbúið og bakað í gegn. Ef það er tekið út of snemma þá fellur það saman. 

Verði ykkur að góðu!

0
Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published.