gleðin sprakk á vörum þeirra

Eiginmaðurinn fékk sendan pípuhatt með póstinum í dag. Hann er að safna sér í hrekkjavökubúning og fær nú alls konar kassa af ýmsum stærðum og gerðum senda frá amazon.com dag eftir dag. Eldri sonurinn ljómaði eins og sólin þegar hatturinn var tekinn upp úr kassanum og gleðin var mikil eins og þið sjáið. Það var skellt í eitt dásemdar danspartí og urðum við að fela viðkomandi hatt eftir gleðina þar sem drengurinn virtist ekki skilja að það yrði að fara vel með hann. Það sem eftir var kvöldsins spurði hann reglulega um “hattí”, setti aðra höndina á höfuðið á sér og horfði á okkur með hvolpa-augunum sínum. Stundum er mjög erfitt að segja nei.

Mér finnst svo yndislegt hvað drengirnir mínir eru góðir bræður. Þeir eru svo krúttlegir saman og sprengja skalann mörgum sinnum á dag. Ég var að taka myndir af Aroni Ívari þar sem hann lá á gólfinu þegar Erik Ómar kemur hlaupandi og leggst á magann við hliðina á honum eins og hann gerir stundum. En það er augnablikið sem fylgdi á eftir sem fyllti hjarta mitt hlýju og hlátri. Þeir horfðust í augu og gleðin sprakk á vörum þeirra og innilegur hláturinn og skríkjur fylltu stofuna. Það var eins og þeir væru að spjalla og segja hvor öðrum brandara. Kannski voru þeir að tala um hvað mamma þeirra getur verið skrítin. Hvað svo sem það var þá trúi ég stundum ekki hvað ég hef verið heppin og blessuð að fá að vera mamma þessara gutta. 

Það er svo ótal margt sem ég er þakklát fyrir. Og það er miklu auðveldara að sjá það og virkilega upplifa það þegar maður setur vandamálin á hilluna. Þess vegna ætla ég að gera einmitt það, njóta hverrar stundar og fókusera á það sem er fyrir framan mig, svona ljómandi fallegt og töfrandi, öruggt og kærleiksríkt. Ég er umvafin besta liðinu.

Alla morgna er ég svo endalaust þakklát fyrir kaffi. Það bjargar mér. Kemur mér í gang. Eiginmaðurinn gerði kaffi handa mér á meðan ég lá sofandi í klessu á grjónapúðanum inni hjá litlu strákunum. Þetta var svo útsýnið mitt eftir að hann var farinn í skólann. Dásamlegt. (3) #365þakklæti

0
Share:

1 Comment

  1. Keithbaritone
    October 29, 2015 / 1:46 pm

    so nice….so thankful for you!

Leave a Reply

Your email address will not be published.