eplabitar, danspartí og fleira konfekt

Ég sagði ykkur frá daglegu danspartíunum okkar í gær. Þau eru bara svo dásamleg að ég verð að deila þeim aðeins meira með ykkur. Litla skottið togar í mömmu sína og syngur með röddinni sinni: “mamma, mamma, dassi, dassi, dassi” – síðan hoppar hann og skoppar, allir angar út í loftið og heimtar að mamma dansi líka. Við setjum plötuna á fóninn. Bróðir minn gaf mér ljúffenga tóna með Ylju í afmælisgjöf og við höfum hlustað mikið á þá síðan þeir komu með póstinum. Þetta fallega lag er aðal dansilagið okkar:

Ég ákvað að smella mynd af þriðja kaffibolla morgunsins. Hann var bara svo fallega staðsettur á borðinu, umkringdur blómum og ilminum sem vekja morgnana til lífsins. Reyndar eru það drengirnir mínir sem sjá um að vekja okkur en kaffi ilmurinn er eins og súkkulaðikurlið ofan á rjómanum ofan á heita súkkulaðinu á köldum vetrarkvöldum. Dásamlegur. 

Epli eru í miklu uppáhaldi hjá Erik Ómari. Það líður ekki dagur án þess að hann biðji um epli. Eða “abbú” eins og hann segir. Ætli það sé ekki dregið af “apples”. Við erum nú í Ameríku. Ég var eitthvað lengi að bregðast við beiðninni um daginn svo hann tók málin í sínar hendur. Náði í skurðarbrettið upp í hillu. Hnífinn í uppþvottavélina (jæks!) og skálina sína í körfuna þar sem hún er geymd. Síðan hékk hann utan á ísskápnum því ekki gat hann opnað hurðina og hrópaði á mig af miklum móð. Þegar eplið var skorið og komið í skálina þá kom hann sér vel fyrir eins og hann gerir venjulega og naut þess að háma í sig bitana. Þetta litla krútt.

Ef ég er ekki í stuttbuxum þá er ég í einhvers konar joggingbuxum hérna heima. Þeir sem eiga svoleiðis buxur vita að oft eru bönd framan á þeim til þess að binda slaufu eða eitthvað í þá áttina. Ég geri það nú aldrei en stóra stráknum mínum finnst þetta voða hentugt til þess að toga mömmu sína þangað sem hlutirnir eiga að gerast. Hann hleypur til mín, “mamma, mamma!” og svo togar hann í böndin og teymir mig áfram. Það er engin undankomuleið svo ég neyðist til að fylgja honum eftir. Ég sé yfirleitt ekki eftir því þar sem honum dettur alltaf eitthvað svo skemmtilegt í hug. 

Þessi strákur er orðinn 6 mánaða að íslenskum tíma. Hann fæddist nú á Íslandi svo það er algjörlega við hæfi að fagna því strax. Hann er sofandi núna en ég knúsaði hann í döðlur áður en hann lognaðist út af. Hann er að læra svo margt nýtt þessa dagana og er kominn á fleygi ferð þó hann sé ekki alveg búinn að skilja hvernig á að skríða. Ég er nú bara fegin. Ekkert vera að flýta þér litli minn! Hann kemst þó þangað sem hann ætlar sér og er ekki lengi að snúa sér í hring og teygja sig í það sem honum finnst áhugavert. Sem er nánast allt. Hann fagnaði þessum tímamótum með því að detta fram úr rúminu okkar í dag. Skelfilegt móment sem ég ætla ekki að upplifa aftur. Hann komst þó heill frá því eins og bróðir hans gerði á svipuðum aldri. Þessir strákar. Gefa mömmuhjartanu vikulegt sjokk, ef ekki daglegt! Þrátt fyrir fallið og þessa háskalegu byrjun á seinni helmingi fyrsta lífsins ársins þá brosti þetta yndi sínu fegursta þegar mamma vildi taka mynd. Takk fyrir að vera til elsku Aron Ívar. Ég elska þig til tunglsins og aftur til baka. 

0
Share:

1 Comment

  1. Keithbaritone
    October 9, 2015 / 11:20 am

    Little snapchats of God's grace in your lives

Leave a Reply

Your email address will not be published.