blik í augum, fiskar í poka og haustið sem hvergi er að finna

Mér finnst alveg ofboðslega gaman að geta deilt með ykkur smá brotum úr dögunum okkar. Sérstaklega þar sem það fær mig til þess að taka betur eftir þessum litlu hlutum sem eru kannski frekar hversdagslegir en eru í rauninni algjörir töfrar. Þessi litlu augnablik sem eru svo dýrmæt. Eins og þetta til dæmis. Litli strákurinn minn sem er allt í einu ekkert svo lítill lengur var á góðri leið með að týna sér undir sófa í morgun. Með glottið á andlitinu og blikið í augunum.

Það hefur verið svo yndislegt að fá að fylgjast með bræðrunum uppgötva heim hvors annars. Læra að tala saman, deila lífinu og mömmu sinni með hvor öðrum, að sjá væntumþykjuna vaxa og blómstra með hverjum deginum eins og viðkvæmt blóm. Því það er einmitt það sem þeirra veröld er á þessu stigi. Erik Ómar hefur staðið sig svo vel í stóra bróðurs hlutverkinu. Ég vissi í rauninni ekkert við hverju ég ætti að búast og heyrði ýmsar sögur af krökkum á hans aldri sem þurftu skyndilega að deila heiminum með litlu systkini. Hann er ótrúlega meðvitaður um bróður sinn, passar alltaf að hann sé með í öllu og að mamma sinni honum strax þegar hann kvartar eða grætur. Hann verður að knúsa litla bróður sinn á hverju kvöldi áður en hann fer að sofa og hann vill helst vekja hann á daginn ef hann er sofandi. Ætli honum finnist ekki eitthvað vanta þegar hann hefur mömmu sína allt í einu út af fyrir sig. Hann skilur að ég á erfitt með að halda á þeim báðum í einu svo hann bendir mér á að leggja Aron Ívar frá mér svo ég geti knúsað hann almennilega. Hann sækir bílstólinn hans þegar við förum í bíltúr. Hann réttir honum snudduna þegar hann grætur. Hann hleður á hann dóti sem hann veit að hann á. Stundum leyfir hann honum að leika með dót sem hann á sjálfur. Stundum. Því það getur verið erfitt að horfa á litla bróður slefa yfir dótið sitt. Þeir hlæja saman. Þeir gráta saman. Þeir knúsast. Hann kallar bróður sinn Ani. Sem er með því krúttlegra sem ég hef heyrt. Það eru forréttindi að fá að vera mamma þeirra. 

Erik Ómar lærði fyrir nokkru að segja fiskur. Reyndar velur hann enska orðið eins og hann gerir með margt og segir “fishy”. Hann elskar fiska og verður svo dásamlega spenntur þegar hann sér fiska einhvers staðar og hrópar “fishy, fishy” og bendir með litlu puttunum sínum. Þar sem dagurinn í dag var eitthvað voðalega pirraður hjá okkur öllum þá ákváðum við að skipta um umhverfi, fara út í hitann og gera eitthvað spennandi. Við enduðum í fiskabúðinni. Og fórum þaðan með þrjá nýja vini í glærum poka. 

Minn maður hljóp um alla búð og vildi skoða allt og klappa öllum fiskunum. Við sáum Nemo og Dori. Svo þegar við vorum að fara þá fundum við þessar elskur sem ég hefði svo gjarnan viljað taka með heim. Ofur sætar að borða kál. 

Þessir feðgar voru líka dálítið sætir á meðal fiskanna. Ég stalst til að taka myndir. Þessar voru eiginlega þær einu sem voru ekki hreyfðar þar sem drengurinn var á skotferð á milli búranna. 

Við fengum lánað búr hjá vinafólki okkar og hjálpuðum fiskunum að flytja inn þegar við vorum komin heim. Nú synda þeir um og eru glaðir með nýja heimilið sitt. Eða ég vona það. Við ættum sennilega ekki að mynda of sterk tengsl við þá en við gáfum þeim samt nöfn. Þeir heita Susie, Njáll og Batman.

Þar sem allir vinir okkar á Íslandi eru að setja inn á samfélagsmiðlana þessar dýrindis myndir af haustinu þá langaði okkur að vera með og tókum þessar í dag. Svona er haustið í Kaliforníu: 


Við leituðum að betra hausti á leiðinni frá fiskabúðinni og heim en fundum ekkert. Við munum halda áfram leit okkar næstu daga. Í ykkar sporum myndi ég fylgjast spennt með! 

0
Share:

4 Comments

 1. Kristinn S. Reed
  October 11, 2015 / 7:22 am

  Luv!

 2. Keithbaritone
  October 11, 2015 / 9:24 am

  We just love these little windows into your days that you give us, Anna Lilja. Thank you for allowing us to follow, in a small way, all of the huge changes and impressions this life offers you right now. God bless you and strengthen you as you care for and love my three little men!!

 3. Anna Elísa
  October 11, 2015 / 10:54 am

  Svo gaman að lesa þetta hjá þér Anna Lilja og fá að fylgjast með lífinu ykkar! Þú mátt alveg senda smá sól og hita hingað á klakann og ég skal senda þér rigningu og rok til baka 😉

 4. annalilja
  October 17, 2015 / 5:34 am

  Thank you afi Keith! For all your kind words and encouragements. I love your comments on my posts and I love sharing these little moments with you and those who wander onto this space. Takk elsku Anna Elísa fyrir fallega kveðjur 🙂 Ég skal gera mitt allra besta til að senda sólina og hitann til ykkar, treð þeim ofan í umslag og skutla því á næsta pósthús :*

Leave a Reply

Your email address will not be published.