að undirbúa jól í skókassa

Að fá gjafir er eitthvað sem Erik Ómar er tiltölulega nýbyrjaður að skilja hvað þýðir. Eða öllu heldur, hann er byrjaður að skilja eftirvæntinguna, gleðina og þakklætið sem fylgir því að fá gjafir. Litlu fiðrildin sem flögra um í mallakút þegar maður fær fallega innpakkaða gjöf, stútfulla af leyndardómum þar til umbúðirnar hafa verið opnaðar og dýrðin blasir við manni umvafin kærleika frá gefandanum. Ég vil varðveita þessa tilfinningu og gera mitt besta til þess að leiðbeina honum á þessari braut, hjálpa honum að skilja að það er ekki bara gaman að fá gjafir – það er líka yndislegt að gefa gjafir. Hann hefur svo sannarlega fengið sinn skammt af gjöfum á stuttri ævi sinni og mér finnst mikilvægt að hann læri strax hvað það er gaman að geta gefið öðrum og deilt með sér.

Jól í skókassa er dásamlegt verkefni sem er að breiða út vængina að nýju þetta árið og þegar ég sá að bæklingurinn var kominn þá fylltist ég öll af tilhlökkun og dró fjölskylduna með mér í leit að litlum fjársjóðum til að setja í skókassa. Við erum einmitt að fara að senda tvær afmælisgjafir til Íslands á morgun og fannst mér alveg tilvalið að nota sendinguna til þess að lauma nokkrum skókassagjöfum með. Ég er svo heppin að eiga góða mömmu á Íslandi sem er alltaf til í að hjálpa mér ef ég þarf á því að halda svo hún mun fá gjafirnar í hendurnar og koma þeim fallega fyrir í skókassa fyrir okkur.

Við völdum að gefa litlum strák á aldrinum 3-6 ára. Flokkarnir eru leikföng, skóladót, hreinlætisvörur, sælgæti og föt. Helst vildi ég láta nokkra hluti úr hverjum flokki í kassann en við völdum einn úr hverjum flokki til að senda heim og svo ætla ég að biðja mömmu um að bæta einhverju við áður en kassinn verður afhentur. Erik Ómar hjálpaði mér að velja lítinn bíl til að gefa. Hann vildi nú samt helst leika með hann sjálfur og skildi ekki alveg afhverju hann mátti ekki taka umbúðirnar af. Við keyptum síðan liti og ætluðum að láta litabók fylgja með en þær voru ekki til! Svo blikk-blikk, mamma þú reddar því. Við keyptum líka fallega bláa peysu, skittles nammi til að fylla magann af sykri og svo tannbursta til að vernda tennurnar fyrir öllum sykrinum. Ég held að Erik Ómar hafi skilið þann part. Að minnsta kosti nammi-partinn.

Það er alveg stórkostlegt að svona verkefni séu til og að við sem fáum að njóta alls þess góða sem lífið hefur uppá að bjóða fáum tækifæri til þess að gefa með okkur og með svona fallegu móti. Maður getur verið svo fljótur að gleyma hvað maður hefur það gott.

Síðasti skiladagur á kössunum er 14. nóvember og það er tekið við kössum í húsi KFUM og KFUK við Holtaveg 28 alla virka daga frá kl. 9 til 17. 

Endilega skoðið bæklinginn – kynnið ykkur verkefnið, flokkana og reglurnar um frágang og drífið svo í því að útbúa kassa. Krakkar hafa svo mikið gaman að þessu og fullorðið fólk líka. Jibbí! 

Þessi stúfur fann hatt í búðinni sem er alveg eins og hatturinn hans “Bóbó bassí”. Við hin þekkjum hann betur sem Bubbi byggir. En þegar hann hrópar þessi tvö orð þá fæ ég glimmer í hjartað. Hann er stundum bara svo sætur. 

0
Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published.