365 þakklæti

Fyrir næstum því tveimur árum síðan tók ég þátt í verkefni sem kallast 365 grateful og gerði ég það á enska blogginu mínu, Starlight and Strawberries. Þetta er mjög fallegt verkefni og finnst mér alveg dásamlegt hvað það hefur hjálpað mörgum. Það byggist á því að taka eftir einstökum augnablikum í daglega lífinu, augnablikum sem annars myndu kannski bara týnast í andrúmsloftinu. Það byggist á því að taka eftir litlu hlutunum sem gera lífið að því sem það er, finna eitthvað á hverjum degi sem maður getur verið þakklátur fyrir, taka mynd af því og skrifa eitthvað smávegis um það. Þakklæti er ótrúlega sterkt afl. Þetta gerði mikið fyrir mig á sínum tíma og langar mig að endurtaka ævintýrið en gera það á íslensku. Ég held ég kalli það 365 þakklæti. Og það byrjar á þessum litla blýantsstúf.

Þessi litli blýantsstúfur féll í fangið á mér þegar maðurinn minn kom heim í kvöld eftir alltof langan dag í skólanum. Ég sat í sófanum og hann kom til mín, hallaði sér yfir mig og kyssti mig beint frá hjartanu. Hann hafði komið við í búð á leiðinni heim og ég bauðst til að hjálpa honum inn með vörurnar. Þegar ég stóð upp féll þessi stúfur á gólfið. Ég er svo óendanlega þakklát fyrir þennan myndarmann og hvað hann er góður pabbi. (1) #365þakklæti

Það var líka margt annað sem ég var þakklát fyrir í dag. Þessi litli hjálpari vill alltaf hjálpa mér að ryksuga. Hann vill líka hjálpa mér að taka snúruna úr sambandi. Og setja hana aftur í samband. Helst á meðan ég er að ryksuga. Aftur. Og aftur.

Monsinn minn vildi bara mömmuknús í dag svo það var voða fátt sem hélt honum góðum ef ég skildi hann eftir á gólfinu eða í stólnum. Þangað til hann fékk Sophie í fangið. Þessi gíraffi er svo mikil snilld. Erik Ómar átti líka svona þegar hann var lítill og hann nagaði hana svo mikið að doppurnar hurfu. Aron Ívar nagaði Sophie sína og spjallaði við hana í langan tíma, nógu lengi til að leyfa mér að klára að ryksuga gólfið. 

Múmínálfarnir eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég er að safna múmínbollunum sem eru svo ósköp fallegir. Ég þurfti að skilja þá sem ég á eftir á Íslandi því þeir komust bara ekki fyrir í töskunum okkar. Svo þeir bíða mín þar. Erik Ómar er nýbyrjaður að hafa áhuga á þeim og höfum við horft á nokkra þætti saman. Hann á mjög skemmtilegt púsluspil sem við púslum núna á hverjum degi því hann biður alltaf um það. “Múmúmamma, múmúpabba…” hvíslaði hann að sjálfum sér í dag á meðan hann púslaði. Ég gat ekki annað en brosað. 

Ef þið viljið taka þátt í 365 þakklæti með mér þá megið þið endilega gera það. Ég ætla að tagga myndirnar mínar á Instagram með #365þakklæti, eitthvað sem ég hvet ykkur til að gera líka ef þið viljið taka þátt. Það má líka gera þetta bara fyrir sjálfan sig, skrifa í dagbók og halda utan um myndirnar á einhvern annan skemmtilegan hátt. 

Ef þið viljið svo fylgjast með okkur á Instagram þá finnið þið mig undir @annaliljae. Ég er alltaf að pósta einhverjum myndum þar inn, ég deili sumum þeirra hér og á facebook en sumar set ég bara þar inn. Annars vona ég bara að þið hafið gaman af að fylgjast með okkur og takk fyrir að nenna að lesa.

0
Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published.