kaflaskipt líf

Lífið mitt er mjög kaflaskipt. Það er ekki oft sem við tökum eftir köflunum í lífi okkar en undanfarin tvö ár hafa þeir verið svo stórir og skiptin svo áberandi að það er ekki annað hægt en að stoppa og segja: Vá.

Eftir tvær vikur förum við aftur til Kaliforníu. Græna kortið er ekki komið. Við höldum í vonina í tvær vikur til viðbótar.

Ég get eiginlega ekki lýst því hvernig mér líður þessa stundina. Tilfinningarnar eru svo margar og mismunandi.

Það er búið að vera yndislegt að hafa manninn minn hérna hjá okkur. Og vonandi þurfum við ekki að vera svona aðskilin aftur. Síðustu vikur hafa verið eins og útkrotað blað. Svo margt að hugsa um og klára. Allt í bendu einhvern veginn. En mitt í þessari hringiðu létum við skíra yngra krílið og fögnuðum tveimur dásemdar árum með eldra krílinu. Við héldum stóra veislu þeim til heiðurs. Athöfnin var yndisleg þar sem skírnarbarnið sofnaði við ljúfan söng viðstaddra.

Eitt af okkar fyrstu verkefnum þegar við komum út er að finna okkur húsnæði. Ég get ekki sagt að það sé þægileg tilhugsun að flytja með börnin sín yfir hálfan hnöttinn og vita ekki hvar við munum búa næsta árið en ég treysti Guði fyrir því eins og öllu öðru. Það er það eina sem ég get gert í þessum aðstæðum. Ef ég hefði ekki trúnna þá væri ég búin að missa vitið á þessu öllu saman.

Þetta er skrítið líf þetta líf. Ég ætla að fylla það af fegurð.

// Fjölskyldan á góðum degi

// Þessi varð 3 mánaða í vikunni

// Þetta yndi fyllir líf mitt gleði á hverjum degi

0
Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published.