ævintýraleg vegabréfsumsókn

Veðrið hefur verið algjörlega dásamlegt síðustu daga. Sólargeislar og fersk gola sem bítur aðeins í kinnarnar. Yndislegt. Ég fór í fyrsta göngutúrinn með Aron Ívar í vagninum og Erik Ómar stóð sig eins og hetja við að ýta honum út úr garðinum. Honum finnst svo gaman að hjálpa til.

Litli molinn minn fagnaði líka fyrsta mánaðarafmælinu í síðustu viku svo mamman skellti í eina litla krúttlega myndatöku.

Ég ákvað að drífa það af að sækja um vegabréf fyrir snáðann þar sem hann þarf að vera kominn með það til þess að geta sótt um græna kortið. Eins og flestir sem hafa sótt um vegabréf vita að þá er tekin mynd á staðnum. Aron Ívar hefur ekki verið duglegur að sofa á daginn svo ég hélt að það yrði nú lítið mál og fara með hann í þessa myndatöku. En drengurinn ákvað að vera sniðugur og sofa eins og engill í gær. Það tók mig góðar fimm mínútur að reyna að vekja hann á meðan vegabréfskonan beið þolinmóð á meðan. Þegar hann loksins opnaði augun þá var hann nú ekki beint sáttur við að láta vekja sig fyrir svona stúss og sýndi okkur alla sína bestu svipi eða þannig og lét heyra vel í sér. Litla skinnið. Þar sem hann er bara rúmlega fimm vikna og ekki farinn að halda höfði sjálfur þá þurfti ég að halda honum þannig að hann sæti uppréttur á hnénu á mér með höfuðið beint og alveg kyrrt og helst galopin augun horfandi í myndavélina. Einmitt. Og svo mátti ekkert sjást í hendurnar á mér. Þetta var eins og besta skopmynd. Anginn var svo þreyttur að höfuðið féll ýmist fram á bringu eða til hliðar, augun voru hálfopin eða andlitið allt í grettu í mótmælaskyni. Og mamman reyndi að halda honum uppréttum með því að smeygja höndunum undir peysuna hans (svo ekkert sæist í þær) og halda höfðinu beinu og styðja við bakið í leiðinni. Það náðust nokkrar myndir. Engin þeirra góð. Ein var ásættanleg. Skrifstofa sýslumannsins í Kópavogi var troðfull af fólki og hver einasta sála þar inni vissi að Aron Ívar og mamma hans voru að sækja um vegabréf. Hann var síðan ekki lengi að sofna aftur þegar herlegheitunum var lokið. Við reyndum að laumast út óséð. Nei. Ekki smuga. Ég vil bara þakka indælu konunni sem afgreddi okkur fyrir þolinmæðina og léttu lundina. Ég gat ekki annað en hlegið að þessu.

0
Share:

2 Comments

  1. Ivo Serenthà
    May 19, 2015 / 12:42 pm

    My compliments for your blog and pictures included,I invite you in my VIDEOBLOG". CLICK VIEW WORLD Greetings from Italy

  2. Kristinn S. Reed
    May 20, 2015 / 7:14 am

    Hefði verið gaman að ver með ykkur í þessu ævintýri! Sakna ykkar, ávallt!

Leave a Reply

Your email address will not be published.