tveggja barna móðir…

Vindurinn leikur sér í trjágreinunum og þeytir laufblöðum í hringi. Lítill drengur hleypur brosandi um garðinn, leikur sér með prik og steina. Sparkar í bolta og hleypur svo og nær í bílinn sinn og keyrir hann hring eftir hring. Ég fylgist með eldri syni mínum út um gluggann og hlusta á yngri son minn anda í vöggunni sinni. Hann fæddist með hraði þann 9. apríl. Þremur dögum eftir að Kristinn minn fór aftur til Bandaríkjanna. Svona er lífið stundum. Nú teljum við dagana þangað til hann kemur aftur.

Litli gullmolinn okkar er yndislegur í alla staði. Hann drekkur vel og sefur vært þess á milli. Eða svona næstum því. Hann hefur verið svolítið óvær og mamman er svo til svefnlaus flesta daga en honum er fyrirgefið. Það er heilmikil áskorun að hugsa ein um hnoðrana mína tvo en við tökum bara einn dag í einu og erum öll að aðlagast þessum breytingum. Foreldrar mínir eru líka algjörir englar og hjálpa mér mjög mikið. Ég gæti þetta ekki án þeirra.

Erik Ómar stendur sig eins og hetja. Hann átti svolítið erfitt með að venjast þessum breytingum fyrst en hann er allur að koma til þessi elska. Og ekki hjálpar að pabbi er hvergi nærri. Hann er svo góður við litla bróður sinn og er alltaf að kíkja í vögguna og klappa honum. Þegar sá litli grætur eða kvartar þá er hann fyrstur til þess að láta mig vita. Hann kemur til hans með snudduna hans og segir: “namm-namm” því hann veit að snuddan er góð og hún huggar.

Það er eins og hugurinn og sálin hverfi inní annan heim þegar barnið manns fæðist. Allt annað gleymist og lífið snýst bara um þennan nýja einstakling. Áhyggjur heimsins eru smátt og smátt að troða sér aftur inní kollinn á mér og ég er sífellt að bæta við nýjum atriðum á “to do” listann hjá mér. Það er margt sem þarf að huga að þegar flutningar til Bandaríkjanna eru yfirvofandi. Við erum að vona að hin langþráðu grænu kort verði komin í hendur okkar í sumar svo þessi hringavitleysa geti loksins tekið enda.

Það byrjar að rigna og ég lít aftur út um gluggann. Hlæjandi andlitið mætir mér og skvettir framan í mig geislandi brosi. Hann horfir upp í loftið og reynir að bragða á dropunum. Þessi sonur minn er dásamlegur.

0
Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published.