sérkennileg sumargjöf

Sumardagurinn fyrsti. Gleðidagur. Það var meira að segja sól og yndislegt veður sem kítlaði mig í gegnum gluggana. Þegar ég var lítil fengum við systkinin alltaf sumargjöf frá foreldrum okkar. Þó það sé löngu liðin tíð þá fékk ég samt sumargjöf í gær. Ef gjöf skildi kalla. Sumarið prílaði uppá topp og brosti sínu breiðasta. Og gaf mér sýkingu í brjóstið. Jebb. Ég eyddi fyrsta degi sumars inni með 40 stiga hita, japlandi á sýklalyfjum og hitastillandi. Eins yndisleg og brjóstagjöfin er þá getur hún líka verið lúmskt hættuleg ef maður passar sig ekki. Ég hef fengið svona sýkingu áður svo ég passaði mig ofurvel. Eða ég hélt það. Einhvern veginn náði þetta ógeð að lauma sér framhjá vörnum mínum og setjast að. Það var sem betur fer frídagur svo allar tiltækar hjálparhellur heimilisins voru til staðar. Það er skelfileg tilhugsun að vera svo lasin að maður getur varla hugsað um börnin sín.

Ljósi punktur gærdagsins var þó sá að litli molinn minn varð tveggja vikna. Hann er að breytast svo mikið og það er svo gaman að fylgjast með því og sjá hversu líkir og ólíkir bræðurnir eru.

Ég féll semsagt af jörðinni í gær ef svo má segja en ég er að hífa mig aftur upp. Hægt og rólega. Mamma keypti líka jarðarber svo það hjálpar mikið. Og litlu krúttlegu spékopparnir sem brosa við mér á hverjum degi gera allt betra.

0
Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published.