leiddu mína litlu hendi…

Eldri stúfurinn minn liggur núna sofandi í sófanum. Síðasta klukkutímann höfum við kúrað saman og sungið vögguvísur. Litla höndin hans hélt fast í mína allan tímann og vildi alls ekki sleppa. Krúttstund sem hjúfraði sér inn að hjartarótum. Hann var að leika sér í stofunni þegar skyndilega birtist köttur í glugganum á hurðinni sem liggur út í garð. Beint fyrir framan litla nefið hans. Þetta var fallegur köttur. En þetta atvik var skelfilegt í augum litla stúfs sem vaknaði eldsnemma í morgun og var því orðinn töluvert þreyttur. Hann hefur líka verið svolítið lítill í sálinni undanfarið út af öllum þessum breytingum svo það þarf ekki mikið til að hrökkva í kút þegar eitthvað svona gerist. Úti eru frostkorn og ískaldar vindhviður þrátt fyrir öll loforð um sumarhlýju og kisugreyið hefur sennilega bara viljað komast inn sem fyrst. Standandi á afturloppunum með framloppurnar klesstar upp við rúðuna, stór augun starandi á okkur og mjálmandi eins og lífið sjálft liggi við. Það er ekki nema von að lítið hjarta skelfist við svona uppátæki. Hann hljóp til mín kjökrandi, greip í höndina mína og hélt fast. Hann náði sér líka í taubleyju til að knúsa. Svo kúrðum við saman þangað til hann róaðist. Ég elska hann svolítið mikið.

0
Share:

2 Comments

  1. Keithbaritone
    April 27, 2015 / 3:26 pm

    What a sweetheart! Please know that I am praying for you guys and that God will send his peace and strength in to your hearts! Let's talk soon!

  2. annalilja
    April 28, 2015 / 12:16 pm

    Thank you thank you elsku afi Keith <3 we love you!

Leave a Reply

Your email address will not be published.