hvíslið í vindinum

Ég á mér þann draum að verða rithöfundur. En það mun ekki gerast nema ég geri eittvað. Fari að hnoða saman orð og skapa veröld sem er engri lík. Og á meðan eiginmaðurinn er í Ameríku, litli snúllinn minn prílar út um allt og ég bíð eftir barni númer tvö – er þá eitthvað annað betra að gera í stöðunni? Maðurinn minn er líka svo duglegur að hvetja mig að ég verð eiginlega að fara að byrja á einhverju. Þetta litla horn mitt hér á veraldarvefnum er ágætis byrjun.

Tíminn hefur svo sannarlega flogið framhjá. Ég hlustaði á hvíslið í vindinum og regndropana tipla á þakinu í gær og hugsaði um lífið.

Við erum búin að vera Ameríkubúar í hálft ár. Sú breyting fór eitthvað skakkt ofan í mig og í staðinn fyrir að skrifa um hana hér þá faldi ég hana innra með mér og reyndi að tækla hana uppá eigin spýtur. Þetta var dásamlegt ævintýri og við lærðum svo margt og upplifðum alveg heilan helling. Þetta er nú samt bara rétt að byrja. Og óvissan sem umkringir okkur er svo áþreifanleg að stundum veit ég varla hvernig ég á að snúa.

Skólinn sem maðurinn minn er í er dásamlegur og honum líður vel í náminu og fær að njóta sín sem söngvari. Það er stórkostlegt að fylgjast með honum og hlusta á hann syngja og dafna í tónlistinni. Síðasta ár var erfitt og spennandi en þetta ár verður held ég ennþá erfiðara. En vonandi bara meira spennandi líka.

Við komum semsagt heim til Íslands í lok janúar. Ég, litli hnoðrinn minn og bumba númer tvö. Maðurinn minn varð eftir úti í Kaliforníu. Lífið er þess vegna mjög skrítið þessa dagana og við erum ennþá að reyna að aðlagast. Ísland er yndislegt og það er svo gott að vera komin heim. En við erum dreifð á milli heimsálfa. Dótið okkar er í kössum í tveimur löndum og hjartað mitt varð eftir í Ameríku. Sonur minn skilur ekki alveg hvar pabbi hans er og hvers vegna hann er ekki til staðar til þess að leika við hann á hverjum degi. En hann talar við hann á hverjum degi, þökk sé nútímatækninni og fyrir það er ég óendanlega þakklát. Þó fjarlægðin sé mikil og ekkert sem kemur í staðinn fyrir nærveru hvors annars þá bjargar það geðheilsunni að geta talað saman og séð hvort annnað á hverjum degi.

Við vitum ekkert hvernig þetta ár verður. Við tökum bara einn mánuð í einu. Eina viku. Einn dag. Og reynum að njóta hvers augnabliks.

Fjölskyldan mun svo stækka í lok mars sem er dásamleg blessun. Ég hlakka svo til að fylgjast með syni mínum takast á við stóra bróðurs hlutverkið.

Þessi sunnudagur byrjar með þakklæti í hjarta. Og þessi meistari er 20 mánaða í dag. Hvert fór tíminn?

0
Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published.