dansaðu vindur

Það er svo skrítið hvernig þessi þrá eftir íslensku orðunum kemur yfir
mig stundum. Kannski er það núna vegna allra þessara pælinga um Ameríku.
Enskan svífur yfir öllu um þessar mundir.

Mig langar
svo að halda báðum bloggunum lifandi. Sérstaklega eftir að við hoppum
yfir hafið. Ég hef það á tilfinningunni að ég muni ríghalda í
dagrenninguna.

Fyrir ykkur sem hafið ef til vill ekki
fylgst með á Starlight and Strawberries, þá erum við litla fjölskyldan
að byrja ný ævintýri í Bandaríkjunum. Kristinn komst inn í einn
flottasta háskólann á vesturströndinni – Chapman University – svo við
munum dansa í sólinni í Kaliforníu á meðan hann þenur raddböndin í
söngnáminu.

Við erum ótrúlega spennt og gríðarlega
stressuð. En ég hlakka til að takast á við þetta og ég held að þetta
eigi eftir að verða alveg stórkostleg upplifun.

Við
erum á kafi í dóti og pappírum og kössum og plönum og listum og Erik
Ómar hlær og skýst á milli. Felur sig í kössunum. Rótar í pappírunum.
Tætir listana í spað.

Það er fjör hjá okkur í byrjun sumarsins. Gulir tulípanar og græn lauf. Dansaðu vindur því við erum svo sannarlega tilbúin í sumarið.

0
Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published.