spriklað á tánum um nótt

Ísland sýnir sínar bestu hliðar í dag. Á svona dögum gæti ég búið úti. Plantað mér einhvers staðar á meðal trjánna og leyft fuglunum að narta í eyrun á mér. Við mæðginin fórum í langan göngutúr í Gufuneskirkjugarði sem er bara hinu megin við götuna hjá okkur. Það er svo mikill friður í þessum garði og algjör dásemd að labba eftir litlu stígunum, sérstaklega í svona fallegu veðri. Sólin baðaði okkur í sparigeislunum sínum og lýsti upp himininn og laufin öll sem eltu okkur eftir stígunum. Við hittum nokkra fuglafélaga sem voru í eltingarleik í grasinu á meðan feitur félagi þeirra sat á grein og hámaði í sig ber. Ferska loftið er algjört sælgæti á þessum haustdögum. Við spjölluðum heillengi við fuglana og hvort annað þangað til hnoðrinn minn litli sofnaði í sælunni.

Það var heldur betur spriklað á tánum í nótt. Drengurinn minn vaknaði í rökkrinu og hóf samræður við sjálfan sig og allt herbergið. Við fórum með partíið inní stofu og skáluðum í mjólkursopa og nokkrum bröndurum. Eftir þvílíkt brölt og kúnstir á teppinu þá sofnaði hann að lokum. Þessi drengur bræðir hjarta mitt á nóttu sem degi.

Ég ætla að stelast á dansleik með norðurljósunum í kvöld. Ef þau láta sjá sig.

0
Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published.