í kyrrðinni er hvíslað

Þar sem ég sat í stofunni og starði út í loftið eftir að hafa tekið góðan tíma í að svæfa litla hnoðrann minn þá áttaði ég mig á því að það er kominn tími til að dusta rykið almennilega af lyklaborðinu. Gefa hugrenningunum lausan tauminn og leyfa þeim að svífa yfir á skjáinn. Ég ætla að setja mér markmið til þess að koma mér í gang: ein færsla á dag í heilan mánuð. Það er svo skemmtileg árstíð að byrja svo minna má það nú varla vera. Ætli mér takist það?

Kraftaverkin gerast svo sannarlega! Þó tölvan mín sé ónothæf þá náðu meistararnir í Macland að bjarga gögnunum mínum. Bara dásemd og gleðin vegna þess er algjör!

Ísland er svo einstakt land. Sólin skorar sífellt á skýin að sýna hvað þau geta svo hér er dansað í dropum eða teiknað í snjóinn. Dýrðin er svo allt um kring þegar sólin lýsir upp haustið og blæs á snjókornin sem komu aðeins of snemma.

Nú er komin nótt og í kyrrðinni er hvíslað um dásamleg fyrirheit.

0
Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published.