þetta er tíminn

Vetrarkuldinn er svo sannarlega farinn að láta vita af sér. Það er samt svo notalegt. Ferska loftið er alveg einstaklega gott fyrir sálina. Og á meðan það er ekki allt á kafi í snjó þá ætla ég að njóta þess. Snjórinn er samt ekki alslæmur. Hann á sínar góðu hliðar og ég vona að hann sýni okkur meira af þeim heldur en hinum þegar hann lætur loks sjá sig.

Vetrinum fylgir myrkur og nú er farið að dimma fyrr á daginn. Nóttin virðist vera lengri og fólk talar um þunga skammdegisins og hvernig hann hlammar sér á sálartetrin. Það finna sennilega allir fyrir þessu að einhverju leiti en þessi tími hefur uppá svo margt fallegt að bjóða. Við þurfum bara að opna augun og hjartað fyrir því. Leita eftir því. Þessir litlu hlutir sem gefa lífinu gildi eru sjaldan eins mikilvægir og í raun auðfinnanlegir eins og á þessum haust- og vetrardögum. Heitt súkkulaði með rjóma. Stjörnuljós á himnum. Kertaljós og góð bók. Göngutúr með einhverjum sem þér þykir vænt um. Litagleðin hjá laufunum. Snjóenglar sem fara á stjá. Þetta er bara brot.

Ullarsokkar. Lopapeysur. Stórir treflar og kaffisopi. Þetta er tíminn!

Það er svo skrítið hvernig allt rykið virðist safnast saman og halda partí á sunnudögum. Ég ætla aðeins að hrista upp í því á meðan snáðinn sefur. Það er svo gott að byrja nýja viku með allt hreint í kringum sig.

0
Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *