kókos-súkkulaði-jarðarberja-rjóma-dýrð

Í morgun þegar ég vaknaði var tígrisdýr að leika við son minn. Alvöru tígrísdýr. Og maðurinn minn sat hjá og fannst það ekkert tiltökumál. Ég rauk til og ætlaði að bjarga englinum mínum þegar ég hrökk upp í rúminu. Er það nú draumur.

Ég notaði tækifærið á meðan stúfurinn svaf sinn hádegisdúr og skellti í eina sunnudagsköku. Dásemdar kókos-súkkulaði-jarðarberja-rjóma-dýrð. Maður ætti eiginlega að gera þetta að hefð. Á sunnudögum bakar maður köku. Það segir sig eiginlega bara sjálft.

Eftir að hafa grátið síðustu tárunum vegna tölvunnar minnar ákvað ég að fara með hana á annað verkstæði til að athuga hvort þeir geti bjargað gögnunum mínum. Nú bíð ég bara eftir kraftaverki.

Nú hringlast þvotturinn í sinni vél og diskarnir og glösin dansa í sinni vél. Um gólfið þyrlast lítil rykský sem bíða þess að vera hrifin upp í hnút. Svoleiðis ætti ekki líðast á sunnudögum.

Í lífinu kemur reglulega upp eitthvað sniðugt, spennandi, fallegt sem mig langar til að gera, kunna, læra – ég hripa það niður í huganum og held svo áfram ferðinni. Án þess að gera nokkurn skapaðan hlut í málinu. Í morgun sagði ég stopp. Nú verður tekinn fram penni og bók og skrifaður listi yfir alla þessa drauma. Mikið verður gaman að geta krossað við eitt af öðru. Lífið er of stutt fyrir svona hangs.

0
Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published.