brosa, hlæja og kyssa táslur

Það er sorglega langt síðan ég krotaði eitthvað á íslensku svo nú ætla ég að bæta fyrir það. Þar sem ástin í lífi mínu er hálfur Bandaríkjamaður og á þar með fjölskyldu sem býr á hinum enda veraldar þá fór ég að blogga meira á ensku. Ég kann hins vegar svo afskaplega vel við íslenskuna að ég tími ekki að hætta að hugsa á íslensku.

Lífið tók krappa beygju í vikunni þegar tölvan mín dó. Með öllum myndunum mínum. Og ég var ekki búin að færa þær yfir á flakkara. En ég var einmitt búin að setja mig í stellingar til þess að framkvæma það loksins þegar fallega, fallega tölvan mín ákvað að nú væri kominn tími til að yfirgefa þennan heim. Nú er ég búin að ráfa um í volæði, sorg og óvissu í nokkra daga en ákvað í morgun að rísa upp úr þeirri vitleysu. Ég lít á þetta sem kennslustund í lífinu. Aldrei gera ráð fyrir því að tölvan þín lifi að eilífu. Og aldrei gera ráð fyrir að hún skili myndunum þínum í kveðjuskini. Vonandi tekst mér að bjarga þeim…

En þá að öðru. Í júní eignaðist ég son. Hann er fallegasta barn sem fæðst hefur. Eða það finnst mér að minnsta kosti. Lífið okkar hefur því snúist að öllu leiti um litla snáðann síðan í sumar. Yndislegir dagar, vikur og þrír mánuðir sem þetta hefur verið. Brosa, hlæja, kyssa táslur – og skipta á kúkableyjum. Bara dásamlegt!

 

Alltaf þegar ég held að ég hafi áttað mig á lífinu þá gerist eitthvað sem hendir þeirri blekkingu út um gluggann. Lífið er svo ótrúlega óútreiknanlegt. Það eina sem við getum gert er að lifa í dag. 

0
Share:

1 Comment

  1. Edda Langworth
    September 13, 2013 / 3:22 pm

    Alltaf jafn gaman að lesa hugrenningar þínar.Knús á ykkur og litlu táslurnar,Edda

Leave a Reply

Your email address will not be published.