Krúttleg rjómasletta eða rokið?

Það er svoleiðis hífandi rok hérna í Hafnarfirðinum að bílarnir eiga í mestu erfiðleikum með að halda sig á jörðinni. Ég veit varla hvort ég þori að keyra yfir til Reykjavíkur á eftir. Klukkan silast áfram á meðan ég hakka í mig hverja blaðsíðuna á fætur annarri í Gamlingjanum. Þessi bók er ótrúlega öðruvísi skemmtileg. Það sem maðurinn hefur ekki lent í. Mæli með því að þið gluggið í hana við tækifæri.

Hin himnesku tár streyma niður gluggana og sveiflast til allra átta með vindinum. Það er nú ósköp gott að vera inni á svona dögum. Ég væri þó helst til í að vera heima, kúrandi í sófanum undir teppi með rjúkandi heitan kaffibolla eða súkkulaðibolla með krúttlegri rjómaslettu ofaná. Jafnvel með saumadótið við hlið mér. Nú, eða heklunálina. Já, ég var að læra að hekla um helgina. Fyrsta blómið heppnaðist nú bara nokkuð vel finnst mér, þó nálin hafi þvælst fyrir mér til að byrja með. Þetta er kúnst. Það sem hægt er að gera með einni nál og löngu bandi – ótrúlegt.

Jæja, ég held ég fylli vatnsflöskuna mína af nokkrum svalandi dropum og undirbúi mig andlega fyrir ferðalagið heim á leið í lok vinnudags. Jæks.

0
Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published.