Sokkatáslur og dropaskreyttir lokkar

Ástin er farin í Vatnaskóg og ég sit heima og prjóna sokka. Þeir eru sætir og grænir, fyrir litlar tásur.

Ég skrifa líka. Get ekki án þess verið.

Á leiðinni heim úr vinnunni þá ringdi svoleiðis á mig dropum að ég valhoppaði næstum því. Hárið fauk allt í kringum andlitið því vindurinn var í góðu skapi. Þegar heim var komið var ég því með úfna en dropaskreytta og skínandi lokka. Ég hringlaði hausnum og skrautið skvettist af mér eins og af blautum hundi. Það kviknaði bros sem læddist út að eyrum.

Það er kominn júlí og enn finnst mér sumarið vera að fela sig. Ætli mér takist nokkuð að finna það áður en haustið hleypur í mark? Það er enn von.

Það er svo frábært þegar nágranninn fer að bora grjót klukkan níu á laugardagsmorgni. Það glumdi svoleiðis um hverfið að stírurnar hrukku í kút og út úr augunum. Ég faldi mig undir koddanum.

Veröldin er blaut í dag og því tilvalið að mála skýin. Þau teygja úr sér eins og fallegur strigi sem bíður eftir penslinum…


0
Share:

3 Comments

 1. mamma
  July 4, 2011 / 10:46 pm

  Það kviknaði bros sem læddist út að eyrum þegar ég las þetta :)Takk fyrir þetta liljan mín.

 2. Kristinn Þór
  July 5, 2011 / 1:21 pm

  Sumarið er alveg komið! 🙂 þú finnur það í fólkinu, ekki veðrinu!Geggjuð mynd btw!Sakna þín í bita!!!

 3. Sahara Rós
  September 13, 2011 / 1:48 pm

  Ef þú ert ekki yndislegast snillingur þá veit ég ekki hvað 🙂 Varirnar mínar brustu í boga sem snéri sér í áttina að himnum! :*

Leave a Reply

Your email address will not be published.