Sumarið…

Eitt af því sorglegasta við sumarið er að þurfa að rífa sig úr örmum sólarinnar og yfirgefa fagran söng fuglanna sem ómar um grasigrónar fjallshlíðarnar í Bjarkargili. Endalaust túnið, jarmið í kindunum, svarthvítir sandarnir, skógurinn, blómin, vindurinn, ilmurinn… og humlurnar. Þessi staður væri ekki samur án þeirra. Fann nokkrar líflausar á gólfinu þegar við komum og uppgötvuðum við að samfélagsaðstaðan þeirra þetta sumarið er undir húsinu. Ein hafði verið skipuð sem varðstjóri og sveimaði hún stöðugt fyrir utan útidyrnar, ýmist í njósnaleiðangri eða öðrum þvílíkum erindagjörðum. Ég sá hana fyrir mér með lítinn hermannahatt og riffil á stærð við eldspýtu, þrammandi í loftinu með suðið í eyrunum og vængina blakandi í takt.

Maríuerlu-par hafði búið sér til hreiður í leikkofanum, Bunukoti, og skiptust þau á að halda vörð um það, tístandi sín á milli í þeirri veiku von að stóra fólkið hætti að glápa á sólina og kæmi sér í burtu. Skipulagt vaktaplan fór fram í hæstu toppum trjánna og sveifluðust hjúin fram og til baka með greinunum þegar vindurinn blés um þær eins og ekkert væri eðlilegra. Ef ég bara gæti verið fugl í einn dag…

Að þurfa svo að demba sér í vinnu þegar Reykjavíkin tók völdin var heldur grátt gaman. Ég reyndi einu sinni að planta peningablómi í einlægri von um að upp myndi vaxa peningatré. Sá draumur varð aldrei að veruleika. En þó sumarið einkennist af vinnudögum þá hef ég einsett mér að fylla þá af lífi. Lifa í núinu og gera eitthvað nýtt á hverjum degi. Jarðarberin eru í blóma og ilmurinn af nýslegnu grasinu liggur í loftinu. Það er gaman að lifa.

0
Share:

2 Comments

  1. Hendrikka
    June 29, 2011 / 1:32 am

    aaa undislegt, vá hvað mig langar í friðsæla giliðtakk fyrir að gera lífið fallegra með orðum þínum fallega Anna

  2. Kristinn Þór
    June 30, 2011 / 1:57 pm

    Pant koma með næst uppí Bjarkagil!! Alas for work… :/

Leave a Reply

Your email address will not be published.