Síðasti dagur ársins er rétt að verða hálfnaður og fólk er strax byrjað að skjóta honum burt með látum og ljósadýrð. Ég hefði persónulega viljað hanga lengur í dagsbirtunni þar sem himininn var hoppandi fagur og svo hjartanlega fjólublár á litinn að augun mín heilluðust á augabragði. Rétt fyrir ofan borgina hringsnérust blár og fjólublár í þéttum spretti á hlaupabrautinni sem skýin höfðu útbúið. Alveg stórkostlegt. Ég hef það á tilfinningunni að stjörnurnar munu dansa í kvöld. Og þegar miðnættið brýst inn með látum munu þær blika í augum mannfólksins hvar sem það stendur meðal ættingja og vina með fyrirheit um splunkunýtt ár. Ég hlakka til að sjá hvað kemur trítlandi á móti mér þetta árið.
0