Hérna kemur sólin

Það er vinnudagur. Hvergi friður. Fólkið rúllar inn eins og það fái borgað fyrir það. Það getur nú samt verið heldur skondin sjón að fylgjast með öllum þessum fjölda. Alls kyns týpur af einstaklingum sem þurfa að fá bílinn sinn skoðaðan. Meira að segja í kreppunni. Ég tók mér andartaksstund í ringulreiðinni og horfði út um risavaxinn gluggann: Þar spígsporaði lítill fuglsangi. Alveg í sínum eigin heimi. Algjörlega ómeðvitaður um umhverfi sitt. Kroppandi í mola á götunni. Síðan hóf hann sig til flugs og hringsnérist á braut út í buskann. Eitthvert langt, langt í burt.

Nú fylgist ég með heldur brúnaþungum skýhnoðrum, fikra sig áfram yfir skærbláan himinflötinn. Það er eins og þeir séu að læðast, tipplandi á támínum sínum til að angra ekki góða veðrið. Ég óska þess í hjarta mér að þeir hafi skilið frostkornin eftir heima. Þau eru úrelt um þessar mundir.

Það berjast innra með mér blendnar tilfinningar þegar ég hugsa til sumarsins sem er á næsta leiti. Eins falleg og blómum þakin sumargolan getur verið að þá dregur hún með sér heilan haug af rassálfum þetta árið. Túlki það hver fyrir sig.

Það ómar í mér einhver kátína. Útvarpið hefur spilað heldur betur skammtinn af góðum, gömlum og kunnuglegum lögum í dag. Í þessum skrifuðu orðum ómar: “Here Comes The Sun” með Bítlunum, og haldiði ekki bara að sólin heyri tónana og kíki undan skýjunum rétta á meðan.

0
Share:

1 Comment

  1. Kristinn Þór
    April 1, 2009 / 9:48 am

    Takk fyrir bloggkorn ástin mín! :*Love, Love…

Leave a Reply

Your email address will not be published.