Lífið er núna!

Ég vaknaði í morgunsárið, með hárið í bendu og krumpur á bómullarnáttfötunum mínum, og trítlaði fram í eldhús. Þar stóð pabbi, skerandi niður grænmeti, eldhress að vanda eftir morgunleikfimina. Bróðir minn þuldi upp stærðfræði formúlur og reglur eins og vitlaus maður (ég ýki kannski smávegis), enda hið víðfræga MR próf í talnagöldrum í uppsiglingu. Ég laumaðist til að taka upp símann minn og senda ástinni minni smáskilaboð frá hjartansrótum, bjóðandi honum góðan daginn. Í sömu andrá sveif móðir mín niður stigann sem liggur frá efri hæðinni, klædd í hversdagsgallann og alles. Stuttu seinna kemur litla systir bröltandi niður sömu leið, með stýrurnar í augunum, alls ekki nennandi að fara í skólann. Hver og einn fjölskyldumeðlimur raulandi sitt morgunstef í takt við hljómfagra tóna söngfuglsins í gyllta búrinu. Aðventuljós í stofuglugganum, jólaljós hangandi í öðrum gluggum, flygsur af nýföllnum snjó fyrir utan þá alla. Frostið fyrir utan. Hlýjan fyrir innan. Nýlagað kaffi á könnunni rataði beinustu leið ofan í fallegu kaffikrúsina mína og hélt ég um hana með báðum höndum á meðan trítlið mitt bar mig að borðstofuborðinu. Kúrandi mig ofan í stólinn, sötrandi ilmandi kaffið mitt, flettandi utan af mandarínunni rek ég augun í meiriháttar setningu eftir Þorgrím Þráinsson, sem blasir við mér á risavaxinni auglýsingu í morgunblaðinu. “Vertu besta útgáfan af sjálfum þér á hverju einasta augnabliki. Lífið er núna!

0
Share:

5 Comments

 1. Anonymous
  December 2, 2008 / 3:45 pm

  ohhh, það er alltaf jafn yndislegt að lesa bloggið þitt Annan mín. Þú gafst mér knús í hjartað eins og svo oft áður! – Perla 🙂

 2. katrín
  December 2, 2008 / 10:32 pm

  þú ert yndisleg anna mín. yndislegt að lesa bloggið þitt.mér finnst ég vera að upplifa þetta móment með þér, þennan morgun í háagerðinu.

 3. Anonymous
  December 3, 2008 / 6:28 pm

  mmmm…. þetta rann mjög vel niður!

 4. ólijón
  December 3, 2008 / 8:58 pm

  Pabbi þinn er massaður gaur!p.s. osom lýsnig á þessum góða morgni

 5. Guðlaug
  December 3, 2008 / 10:24 pm

  😉

Leave a Reply

Your email address will not be published.